Makríllinn – gull hafsins

Pistlar
Share

Algert metár hefur verið í makrílútgerð í Noregi rétt eins og á Íslandi. Norrænir vefir tala um makrílinn sem gull hafsins. Öll met hafa verið slegin í Noregi. Bátar sem selt hafa afla sinn þar hafa fengið himinhátt verð fyrir aflann. Um 260 þúsund tonn af makríl hafa verið seld í gegnum uppboðs- og sölukerfi Norges sildesalgslag fyrir um 60 milljarða ísl króna. Meðalverðið er 242 kr/kg og hefur hækkað um 50% frá síðasta ári. Í september setti báturinn Selvåg Senior met og seldi 850 tonn af ferskum makríl fyrir liðlega 270 kr/kg.

Hér á landi núa menn saman höndum af ánægju yfir velgengninni. Teitur Gylfason hjá Iceland Seafood sagði í viðtali við Fiskifréttir að glæsilegur árangur hefði náðst í manneldisvinnslu á makríl og „það er langt síðan að sjávarútvegurinn hefði fengið svona mikla peningainnspýtingu á einu bretti“. Færeyingar fengu 2 milljarða króna í veiðigjald af makrílveiðum ársins. Þar af keypti Samherji 1505 tonna kvóta og greiddi um 150 milljónir króna fyrir eða 100 kr/kg.

En þegar kemur að því að skila samfélaginu einhverju af hagnaðinum er annað upp á teningnum. Fyrir allan makrílkvóta landsmanna, sem var 100 sinnum stærri en það sem Samherji keypti, fékk skuldum vafinn ríkissjóður aðeins 140 mkr. Færeyingar fengu 19 sinnum meira í kassann af hverju kg af veiddum makríl en Íslendingar, 17 kr borið saman við 0,90 kr. Fyrir þann hluta kvótans, sem var boðinn upp greiddu útgerðarmenn 80 kr/kg að meðaltali.

Framkvæmdastjóri LÍÚ heldur því fram í grein í Fréttablaðinu að umtalsvert tap sé á veiðunum og þess vegna sé ekkert eftir til ríkisins. Í annáluðu metári tekst íslenskum útgerðarmönnum ekki að skila hagnaði. Stjórnvöld hafa ákveðið af mikilli miskunnsemi sinni að gefa útgerðarmönnum kvótann og hafa fellt niður skyldur þeirra gagnvart þjóðfélaginu. Frekar verður líknardeildinni á Landakoti lokað. En á gróðann glóir í Noregi og í Færeyjum sem gull hafsins. Þurfum við ekki aðra útgerðarmenn?

Athugasemdir