Alþingi engist þessa dagana yfir því verki að taka á syndum flokkanna og hlut þeirra í hinu siðferðilega og efnahagslega hruni sem varð öllum ljóst með falli viðskiptabankanna haustið 2008. Við slíkar aðstæður verður oft að ráði að hengja einhvern og láta hann taka á sig syndirnar. Hinir lánsömu sleppa fyrir horn og verða jafnvel eins og hvítþvegnir englar á eftir ef vel tekst til.
Þetta var gert fyrir rúmum 20 árum þegar uppvíst varð um það athæfi nokkurra handhafa forsetavalds að nýta sér aðstöðuna til þess að fá keypt áfengi á kostakjörum. Forseti Hæstaréttar var stórtækastur og hafði sankað að sér nokkuð á annað þúsund vínflöskum með þessum hætti. Almenningi ofbauð vitanlega og ríkisstjórnin greip til aðgerða í snatri. Höfðað var mál gegn þeim stórtækasta og honum vikið frá embætti með dómi. Hinir sluppu og voru látnir í friði.
Mér finnst of margt minna á þessa atburðarás þessa dagana þegar lagt er til að höfða mál gegn 3 – 4 ráðherrum í ríkisstjórninni sem sat þegar bankahrunið varð. Ekki það að ég telji að ráðherrar eigi ekki að axla ábyrgð á gerðum sínum, heldur hitt að flestir ráðherrarnir sleppa sem sannanlega bera ábyrgð á þróun mála frá aldamótum til hrunsins í október 2008. Ábyrgð þeirra sem aðgerðum sínum og embættisfærslum áttu þátt í hruninu hlýtur að vera meiri en hinna sem aðhöfðust ekki á lokastigum þessa tímabils. Aðgerðir og verk vega augljóslega þyngra en aðgerðarleysi eins og málavextir eru í þessu mikla máli. Það er verið að taka nokkra fyrir og sleppa mörgum og þar með talið höfuðpaurunum.
Alþingi hefur löggjafarvaldið og getuð ákveðið það sem það vill í þessum efnum og eðlilegast er að taka allt málið fyrir og alla þá ráðherra sem til greina koma á tímabilinu. Skortur á viðeigandi löggjöf er engin afsökun. Á lokastigi sjálfsblekkingarinnar gerðu ráðherrar sig seka um röng viðbrögð og yfirhylmingu en kannski fyrst og fremst þá skyssu að trúa því ekki að bankarnir myndu fara á hausinn. En þeir voru ekki einir um þá villutrú.
Málarekstur gegn ráðherrum afmarkast hins vegar af embættisfærslum þeirra. Það nær ekki til pólitískrar ábyrgðar. Hvorki í gildandi lögum né stjórnarskrá er neitt um ábyrgð sem byggð er á pólitískri stöðu. Þess vegna er tómt mál að höfða mál á hendur Geir Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur með þeim rökum að þau voru oddvitar sinna flokka í ríkisstjórn eins og fram kemur í ákæruskjali þingmannanefndarinnar. Dómstólar dæma eftir lögum og munu sópa út af borðinu þeim ákæruatriðum og líta aðeins á þau sem varða embættisrekstur þeirra. Sérstaklega er þetta áberandi gagnvart Ingibjörgu Sólrúnu sem hafði ekki ráðherravald á þeim málasviðum sem um ræðir eins og Rannsóknarnefnd Alþingis bendir á. Þá verða fyrrverandi ráðherrar ekki sakfelldir fyrir skort á viðbrögðum í lagasetningu þar sem löggjafarvaldið er hjá Alþingi en ekki ráðherrum.
Þarna er verið að blanda saman embættisverkum sem lög um ráðherraábyrgð geta náð til og algerlega óskilgreindu pólitísku hlutverki einstaklinga, ef til vill í þeim tilgangi að beina frá flokkunum mikilli óánægju almennings með starfshætti stjórnmálaflokkanna. Þetta minnir ískyggilega á brennivínsmálið forðum. En þó öðruvísi í veigamiklu atriði. Hæstaréttardómarinn var sannarlega aðalgerandinn, langstórtækastur í misnotkuninni og verðskuldaði refsinguna. En fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar var ekki gerandi, var ekki einu sinni á sviðinu mestan þann tíma sem máli skiptir.
Stóra meinsemdin frá valdatölu Davíðs Oddssonar og ef til vill fyrr hefur verið oddvitaræðið, hið takmarkalitla vald sem formenn stjórnarflokkanna höfðu. En það byggðist líka á undirgefni, lítilþægni, framapoti og heigulshætti þingmanna sem gengust upp í því að skjalla foringjann, styðja hvaða óhæfuverk sem var og ráðast á hvern þann sem sýndi tilburði til sjálfstæðrar hugsunar og verka. Krafan var að ganga í takt eins og velþjálfuð herdeild og getur hver maður nú séð að slíkt er ekki heilbrigt ástand. Oddvitaræðið er almennt vandamál í stjórnmálunum ásamt skorti á hæfileikaríku fólki með sterka pólitíska stöðu innan síns flokks.
Alþingi er á góðri leið að sigla framhjá því nauðsynjaverki sínu að taka til í flokkakerfinu, láta það axla sína ábyrgð á hruninu og stuðla að heilbrigðara stjórnmálastarfi og lætur duga að taka fyrrverandi oddvita Samfylkingarinnar út úr pólitíska hópnum og setja hana á aftökupallinn. Það er verið að hengja konu fyrir kerfið. Ingibjörg Sólrún gerði mistök á ráðherratíma sínum en ábyrgð hennar er fyrst og fremst á pólitíska kerfinu sem hún var hluti af. Þess vegna á hún og aðrir frammámenn stjórnmálanna undanfarin ár að svara fyrir ábyrgð sína á því. Hún var ekki ein í þeim heimi. En hún er ein um að vera pólitískt ákærð í þingskjali 1502 „fyrir vanrækslu á starfsskyldum sínum sem . . . oddviti Samfylkingarinnar í ríkisstjórn“.
Athugasemdir