Nýjasta stjórnarfrumvarpið um breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða er að mörgu leyti merkilegt mál og í því gagnlegar breytingar lagðar til. Sérstaklega er það skötuselsákvæðið sem vekur athygli og verður forvitnilegt að fylgjast með því hvort það verður að lögum. Gangi það eftir verður búið að vega svo að eignarhaldi útvegsmanna á aflahlutdeildum að leitt getur til róttækra breytinga. Enda brást LÍÚ hart við og sakar ríkisstjórnina um að ganga þvert gegn gefnum loforðum.
Það eru sex atriði í skötuselsákvæði frumvarpsins sem öll eru athyglisverð og sum þeirra nýmæli. Í fyrsta lagi er aukin veiði á skötusel án þess að aukningin gangi til þeirra sem eiga fyrir heimild til þess að veiða þennan ófrýnilega fisk. Í öðru lagi er magnið utan aflahlutdeildarinnar nærri því jafnmikið og innan þess eða 2000 tonn þegar 2500 tonn eru í kvótakerfinu. Grundvöllur kerfisins hefur ætíð verið sá að nær allt það sem veiða má verði innan kvótakerfisins og skiptist milli þeirra sem eiga aflahlutdeild. Aldrei áður hefur svo miklu af því sem veiða má verið ráðstafað sem kvóta utan kvótakerfisins ef þetta nær að ganga. Þetta ákvæði aftengir eignarhald útvegsmanna á leyfðum kvóta til veiða og verður það sem líklega verður harðast tekist á um.
Í þriðja lagi getur hver sem á bát með veiðileyfi keypt allt að 5 tonn af skötusel og veiðarnar eru þannig opnaðar fyrir nýja útgerðarmenn. Í fjórða lagi er það nýmæli að viðbótarkvótann má aðeins veiða utan hefðbundinnar veiðislóðar á Suðurlandi. Breyting á útbreiðslu skötsels leiðir til viðbótarúthlutunar sem allir eiga kost á að nálgast. Þetta opnar leið fyrir svæðisbundna kvóta í einstökum tegundum enda hefur útbreiðsla fleiri fisktegunda breyst á síðustu árum. Í fimmta lagi er nýi skötuselskvótinn óframseljanlegur og hann verður að veiða og loks í sjötta lagi þá ber að borga ríkinu fyrirframákveðið gjald fyrir veiðarnar 120 kr./kg.
Þegar allt er lagt saman er um mikla breytingar að ræða og þær geta varðað veginn til grundvallarbreytingar á kvótakerfinu, ef þær verða yfirfærðar á veiðar á öðrum fisktegundum en skötusel. Það er hins vegar ekki víst að svo verði. Á dögum frjálsra veiða smábáta og síðar sóknarmarksins í þorskaflahámarkinu á síðasta áratug fór umtalsverður hluti þorsk- og ýsuveiðanna fram utan kvótakerfisins og skerti hlut þeirra sem voru innan kvótakerfisins. Hlutur smábátanna endaði sem kvóti í öllum tegundum og kvótakerfið hélt velli nær óbreytt, þrátt fyrir verulega tilfærsla á aflahlutdeild milli útgerðarflokkanna. LÍÚ sætti sig við tilfærsluna gegn því að verja grundvöll kerfisins. Það segir sína sögu um áherslur þeirra, að fórna miklum fjárhæðum í töpuðum veiðiheimildum fyrir óbreytt eignarhald að öðru leyti.
Aðrar gagnlegar breytingar eru boðaðar í frumvarpinu. Þar ber hæst að línuívilnun er treyst í sessi og aukin. Veiðiskylda er aukin og dregið úr möguleikum til þess að fara framhjá ákvæðum um takmörkun á framsali veiðiheimilda. Loks er dregið verulega úr heimildum til þess að geyma veiðiheimildir og flytja þær óveiddar til næsta árs.
Í heildina stuðla breytingarnar til þess að reglur um veiðar og framsal verði eins og til var ætlast í upphafi. Það er meira en tímabært að taka í taumana í þessum efnum. Of lengi hafa einstakir útgerðarmenn komist upp með óeðlilegar tilfærslur í því eina skyni að hámarka hagnað sinn án veiða. Eðlilegt er að gera þessa breytingar og láta það svo bíða endurskoðunar laganna í heild sinni, sem stendur yfir, að taka stefnumarkandi breytingar. Útfærsla í fiskveiðikerfi ræðst auðvitað af því hvernig það verður.
En versta leiðin er það lokaða kerfi sem LÍÚ vill fá. Það er einokunarkerfi fárra yfir almannahagsmunum. Slíkt er fullreynt hér á landi og dapurlegt að á 21. öldinni skuli tveir stjórnmálaflokkar að minnsta kosti, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafa slegið skjaldborg um sérhagsmunina.
Athugasemdir