Menntamálaráðherra hefur á vettvangi ríkisstjórnar tekið þátt í meðferð máls sem varðar hann persónulega í verulegum mæli. Í stjórnsýslunni valda sambærilegar aðstæður ótvírætt vanhæfi. Það er kjarni málsins. Ráðherra ber því við að ákvæði stjórnsýslulaga eigi ekki við um ríkisstjórnina. Ráðherrafundur sé fyrst og fremst pólitískur samráðsvettvangur og að ríkisstjórnin taki ekki stjórnsýsluákvarðanir.
Ég spurði Menntamálaráðherrann í dag í fyrirspurnartíma á Alþingi um það hvort hann teldi sig hafa fullt og óskorað hæfi til þess að koma að yfirtöku ríkisins á viðskiptabönkunum þremur og ákvörðunum er varða nýju bankana, sérstaklega Kaupþing. Tilefnið er að maki ráðherrans var einn af yfirmönnum bankans og fram hefur komið opinberlega að hann keypti hlutabréf í bankanum fyrir 500 milljónir króna. Þá er rétt að muna eftir því að ríkisstjórnin ákvað að freista þess að verja Kaupþing og Seðlabankinn veitti bankanum stórt lán í því skyni.
Ráðherrann svaraði alveg skýrt að svo væri, lög og reglur um hæfi meina ekki menntamálaráðherra að koma að ákvörðunum um viðskiptabankana á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Aðrir en Menntamálaráðherrann sæu formlega um framkvæmd ákvarðana á þessi sviði. Stundum aðrir ráðherrar og stundum Seðlabankinn.
Gott og vel, vissulega er umdeilanlegt hvort hæfisreglurnar eigi við. En það þarf að líta til nokkurra atriða, sem þarf að meta áður en nokkru er slegið föstu:
Í fyrsta lagi að ráðherrann er þátttakandi í málsmeðferð og mótun ákvörðunar og kann þannig að búa yfir upplýsingum eða vitneskju sem hægt að hagnýta sér varðandi fjárfestinguna í bankanum, nokkurs konar innherjaupplýsingar. Það verður að muna eftir því að menntamálaráðherrann er varaformaður Sjálfstæðisflokksins og það finnst mér ósennilegt að nokkru máli sé ráðið til lykta á vettvangi ríkisstjórnar án hans aðkomu og samþykkis, ef hann á annað borð vill skipta sér af.
Í öðru lagi þá er fátítt að pólitískum ákvörðunum í ríkisstjórn sé ekki hrint í framkvæmd af þeim aðilum sem taka við ákvörðuninni til úrlausnar. Aðild að hinni pólitísku ákvörðun er býsna nærri aðild að formlegri framkvæmd. Óumdeilt er að sá ráðherra sem framkvæmir ákvörðinuna er í þeim störfum sínum undir ákvæðum stjórnsýslulaga. Óvarlegt að fullyrða að skýr pólitísk niðurstaða í ríkisstjórn, sem er forsenda hinnar formlegu ákvörðunar, sé undanþegin ákvæðum laganna.
Í þriðja lagi þá eru teknar ákvarðanir í ríkisstjórn í ýmsum málum og þær tilkynntar að afloknum ríkisstjórnarfundum. Stundum er það gert með formlegu bréfi til viðeigandi aðila eða með fréttatilkynningum. Ansi oft hefur komið fram í fréttatilkynningum að ríkisstjórnin hafi ákveðið þetta eða hitt.
Í fjórða lagi þá er sjálfstæði stofnana alltaf takmörk sett þrátt fyrir lagaákvæði. Seðlabankinn er sjálfstæður og hann tók formlega séð ákvörðum um lánveitingu til Kaupþings. En engu að síður var það mál rætt í ríkisstjórn og milli ráðherra og engin ástæða til þess að ætla að Seðlabankinn hafi veitt lánið nema að fengnu samþykki eða stuðningi ríkisstjórnar. Ég efast raunar um það að Seðlabankinn hefði veitt lánið í andstöðu við ríkisstjórnina. Svo var það stýrivaxtahækkunin síðasta. Seðlabankinn birti sönnun þess að ríkisstjórnin kom að þeirri ákvörðun sem og sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hvað sem líður lagaákvæði um sjálfstæði bankans.
Svo er það kannski aðalatriði málsins burtséð frá formlegu gildissviði vanhæfisákvæða stjórnsýslulaga. Vilja ráðherrar og finnst þeim eðlilegt að hafa afskipti af málum þar sem svona háttar til? Er það eðlilegt að einstakir ráðherrar geti beitt eða misbeitt pólitísku valdi sínu og áhrifum og verið undanþegnir ákvæðum laga eins og stjórnsýslulaga og vísað á þá sem formlega framkvæma pólitíska viljann? Það finnst mér ekki eðlilegt. Menntamálaráðherrann er greinilega á annarri skoðun.
Að lokum, umræða um hæfi og vanhæfi snýst ekki hvort ráðherrann hafi misbeitt valdi sínu. Því ætla ég ekki að halda fram á þessu stigi, vegna þess að nægilegar upplýsingar liggja ekki fyrir. En umrædd lagaákvæði voru sett til þess að koma í veg fyrir að sá sem framkvæmir opinbert vald, sé í aðstöðu þar sem draga má efa óhlutdrægni hans. Þau sjónarmið eiga jafnmikið við störf ráðherranna á vettvangi ríkisstjórnarinnar og annað pólitísk samráð þeirra eins og störf í ráðuneytum þeirra.
Athugasemdir