Helguvík en ekki Bakki

Pistlar
Share

Umhverfisráðherra um hefur ógilt þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum á nokkrum framkvæmdum í Þingeyjarsýslu, þ.e. byggingu álvers við Bakka, virkjun við Þeistareyki, stækkun Kröflu og línulagnir frá virkjunarsæðunum báðum til Húsavíkur. því til viðbótar hefur ráðherrann ákveðið að nýta heimildarákvæði í lögunum og skyldað framkvæmdaaðila til þess að láta fara fram sameiginlegt mat á öllum þessum framkvæmdum.

Fyrsta spurningin er þessi: til hvers? Ráðherrann segir í blaðaviðtali að lítil seinkun verði á málinu vegna þessara tveggja ákvarðana. Það skýrir ekki málið heldur gerir það enn frekar illskiljanlegt. Til hvers er þá verið að skylda framkvæmdaaðila að leggja út í verulegan kostnað við það að meira og minna endurtaka það sem þegar hefur verið gert? Þetta þarf að skýra frekar. Mér sýnist ólíklegt annað en að Landvernd, sem var kærandi í málinu, og aðrir sem eru framkvæmdunum andvígir, muni nýta hvern þann lagakrók til botns, sem ráðherrann réttir þeim með úrskurði sínum og tefja framgang málsins von úr viti.

Annað sem vekur athygli er að ekki er sama afgreiðsla ráðuneytisins varðandi Þingeyjarsýslur og álverið í Helguvík. Þá úrskurðaði ráðherra að ekki skyldi fara fram sameiginlegt umhverfismat allra nauðsynlegra framkvæmda vegna álversins þar. Rökin sem eru færð fram eru að þá hafi framkvæmdir verið komnar of langt og að sameiginlegt mat hefði verið of íþyngjandi. Augljós ályktun er sú að þar sem menn spila eftir leikreglunum og eru tímanlega með umsóknir sínar er gerð meiri krafa og frekar beitt heimildarákvæðinu. Það er augljóslega íþyngjandi fyrir Bakka og vandséð er hvernig stjórnsýslan í þessum tveimur málum fellur undir meðalhóf og samræmi.

Umhverfisráðherra hefur sagt að ekki sé mögulegt að reisa nema eitt álver með þeim heimildum sem fyrir hendi eru í viðaukanum við Kyoto samkomulaginu. Ákvarðanir umhverfisráðherra stuðla að því að Helguvík komist á koppinn og nái þeim útblástursheimildum sem eftir eru og eftir sitji Þingeyingar með sárt ennið.

Loks vekur eftirtekt að ákvörðun ráðherrans skilyrðir virkjun jarðvarmans í Þingeyjarsveit við álver á Húsavík. Þykir einhverjum skynsamlegt að gefa skipi haffærnisskírteini með þeim skilyrðum að það verði að veiða eina tiltekna fisktegund og landa henni á tilgreindu plássi? Ef veiða á aðra fisktegund eða landa í öðru þorpi þá þurfi að afla allra leyfa upp á nýtt, þótt engin breyting hafi orðið á skipinu sjálfu og haffærni þess. Hvers vegna á að samtvinna mat á virkjun við það hver kaupandi orkunnar er og hvar hann er?

Nú þarf bæði ráðherrann og ríkisstjórnin að skýra mál sitt gagnvart landsmönnum og ekki hvað síst gagnvart landsbyggðarmönnum og sér í lagi gagnvart Þingeyingum. Hvaða hráskinnaleikur er í gangi á stjórnarheimilinu?

Athugasemdir