Tekist hefur að lyfta Grettistaki í framþróun íslensks þjóðfélags á þeim liðlega 90 árum sem liðin eru síðan við hófum þá vegferð efla sjálfstæði þjóðarinnar og að taka í eigin hendur stjórn mála hér á landi. Þá var landið meðal þeirra fátækustu og vanþróuðstu í Evrópu en nú eru lífskjör landsmanna meðal þeirra allra bestu í heiminum. Þessar stórstígu framfarir, sem eiga ekki margar hliðstæður, eru engin tilviljun og komu ekki af sjálfu sér heldur urðu vegna þess að við gættum sjálf okkar eigin hagsmuna.
Það er löng reynsla af því að aðrir gæta sinna hagsmuna betur en okkar og því ber að varast að koma okkur í þá stöðu á nýjan leik. Á alþjóðlegum tímum er samstarf við aðrar þjóðir bæði skynsamlegt og óhjákvæmilegt en það verður ætíð að grundvallast af okkar eigin þörfum.
Frjálslyndi flokkurinn hefur í samþykktum sínum lagt áherslu á að Ísland tengist Evrópu sífellt meira ekki síst eftir að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið varð til og síðan með stækkun þess í kjölfar nýrra ríkja í Evrópusambandinu. Í stjórnmálayfirlýsingu síðasta landsþings er til dæmis tekið fram að flokkurinn telji aðild að Evrópska efnahagssvæðinu vera eitt af mikilvægustu atriðum í utanríkismálum Íslendinga. Þessi eindregni stuðningur við EES samninginn segir auðvitað sína sögu um þann ávinning sem talinn er vera af samstarfinu við Evrópusambandsríkin.
Forræði yfir auðlindum
Þegar spurt er hvort stíga eigi skrefið til fulls og ganga inn í Evrópusambandið er svarið skýrt. Flokkurinn hefur allan vara á um hugsanlega aðild og aðild kemur ekki til greina við núverandi reglur þess í sjávarútvegsmálum. Í þessi felst ekki ófrávíkjanleg andstaða um inngöngu heldur eru settar þær skorður að Íslendingar fari sjálfir með allt forræði fiskistofnana og fiskveiðilögsögunnar og annarra sameiginlegra auðlinda landsins, svo sem vatns, vatnsorku og gufuafls.
Evrópusambandið hefur til þessa gert kröfu um að yfirtaka alla stjórn fiskveiðiauðlindarinnar og sambandið myndi taka ákvörðun um leyfilegan hámarksafla úr einstökum fiskistofnum , öllum aðildarríkjum yrðu heimilaðar veiðar inn að 12 mílna landhelgi og ESB myndi fara með samninga við önnur ríki. Að auki yrðum við að falla frá núverandi lögum um takmarkanir á fjárfestingum erlendra aðila í sjávarútvegi.
Þessi staða er algerlega óásættanleg fyrir íslenska hagsmuni. Stjórnun fiskistofnana og annarra mikilvægra auðlinda verður að vera í okkar höndum og nýting þeirra verður að vera til þess að efla innlenda atvinnu og hagsæld íbúanna.Ef gengið yrði að kröfum ESB með inngöngu í sambandið verður of mikil hætta á því að innlendum hagsmunum verði vikið til hliðar. Þá áhættu eigum við aldrei að taka. Í þessu máli gildir að ekki verður samið eftir á.
EES gefur helstu kostina
Samningurinn um evrópska efnahagssvæðið færir okkur helstu kosti Evrópusambandsins. Sameiginlegur vinnumarkaður er vissulega mikils virði fyrir Íslendinga, tryggir þeim tækifæri erlendis og ekki síður tryggir samningurinn innlendum fyrirtækjum aðgang að vinnuafli, sem verður vaxandi skortur á að komandi árum. Aðrir helstu kostir Evrópusambandsins eru samræmt regluverk fyrir viðskiptalífið og fyrirhafnarlítill aðgangur að margvíslegri vandaðri löggjöf á ótalmörgum sviðum.
Aðild myndi hins vegar fylgja sá annmarki að ákvarðanataka flyttist úr landi og að yfirþjóðlegt vald myndi í vaxandi mæli ráða málum til lykta á sviðum löggjafar, dómsstóla og framkvæmdavalds.
Það er ekki tímabært að huga að umsókn um aðild að Evrópusambandinu og verkefnið framundan er að stjórnmálaflokkarnir geri grein fyrir samningsmarkmiðum sínum og skilyrðum fyrir umsókn. Þegar það liggur fyrir getur almenningur metið hvernig hagsmuna lands og þjóðar er best gætt til til lengri tíma litið.
Sæmileg sátt þarf að vera um forsendurnar hér innanlands áður en tímabært er að stíga næstu skref og án slíkrar sáttar er engin von um að nokkuð verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag.
Athugasemdir