Stefnufesta Frjálslyndra skilar sér

Pistlar
Share

Frjálslyndi flokkurinn hefur haft skýra afstöðu til Evrópusambandinu og aðildar Íslands að því. Gerð er grein fyrir henni í málefnahandbók flokksins og flokkurinn gekk til Alþingiskosninga í fyrra á grundvelli þeirrar stefnu. Fyrr í þessum mánuði ítrekaði þingflokkurinn afstöðuna í sérstakri ályktun sem hann sendi frá sér. Kjarninn í henni er þessi:

„Þingflokkur Frjálslynda flokksins áréttar afstöðu flokksins til aðildar að Evrópusambandinu.
Flokkurinn hefur allan vara á um hugsanlega aðild.
Aðild að sambandinu kemur ekki til greina við núverandi reglur þess í sjávarútvegsmálum.
Það er ófrávíkjanleg afstaða Frjálslynda flokksins að Íslendingar sjálfir fari með allt forræði
fiskistofnanna og fiskveiðilögsögunnar og annarra sameiginlegra auðlinda.

Reglur Evrópusambandsins gera ráð fyrir því að stofnanir þess ráði ákvörðun um nýtingu einstakra fiskistofna og fari með samninga við erlend ríki um veiðar úr þeim. Engin tök verða á því að takmarka fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum sem þannig myndu geta komist yfir forræði veiðiheimildanna.

Áður en til þess kæmi að hugað yrði að aðild okkar að E.S.B. þyrfti að gera róttækar breytingar á löggjöfinni um stjórn fiskveiða og stjórnarskránni til að tryggja eign þjóðarinnar á sameiginlegum auðlindum og nýtingu þeirra.

Þingflokkurinn telur, að við núverandi aðstæður sé ekki tímabært að huga að aðildarumsókn að Evrópusambandinu“.

Forræði auðlindanna og almannahagsmunir eru lagðir til grundvallar í afstöðu okkar. Við erum tilbúnir að ræða um Evrópusambandið og aðild að því en það verður að vera á okkar forsendum. Aðild getur ekki haft þann tilgang að rýra lífskjör almennings á Íslandi heldur á hún væntanlega að leiða til þess að þau batni.

Umræðan undanfarna mánuði hefur einkennst af því að ESB aðild myndi leysa aðsteðjandi efnahagsvanda. Evran væri eins og frelsandi engill en krónan upphaf og endir alls vanda. Slík umræða er byggð á sandi og hefur þingflokkurinn einmitt varað við henni og bent á að Íslendingar verði að leysa sinn vanda sjálfir á eigin forsendum. Fyrr verðum við hvort eð er ekki stofuhæf í Evrópusambandinu.

Þessi stefnufesta þingflokksins hefur greinilega skilað sér ef marka má skoðanakönnum Fréttablaðsins í dag. Þar kemur fram meirihluti kjósenda flokksins er andvígur því að hefja undirbúning að aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Kjósendur flokksins og þingflokkur eru greinilega sammála og það er ánægjuefni.

Rétt er að vekja athygli á því að spurt er um afstöðu til þess að hefja undirbúning að aðildarviðræðum. Það er ekki sama og spyrja um afstöðu til aðildarviðræðna. Augljóslega eru fleiri tilbúnir að samþykkja að hefja undirbúning heldur en þeir sem vilja ganga lengra og hefja viðræður. Þess vegna má ætla að andstaðan við að hefja viðræður sé meiri en andstaðan við að hefja undirbúning að viðræðum. Hjá okkur eru 57% kjósendanna andsnúnir því að huga að undirbúningi viðræðna svo ætla má að andstaða við viðræðurnar sjálfar sé vel yfir 60% og að andstaðan við inngöngu í ESB sé enn meiri.

Sem dæmi má nefna að í könnun Gallup frá mars 2002 sem gerð var fyrir samtök iðnaðarins reyndust 91% aðspurðra vera hlynntir því að hefja aðildaviðræður við ESB en aðeins 55% vildu ganga inn í ESB. Athyglisvert er að stuðningur nú við undirbúning að viðræðum er aðeins um 68% sem er mun minna en í mars 2002 við að hefja viðræður um aðild að ESB. Það er merkilega lítill árangur af þungri umræðu í marga mánuði um að eina svar Íslendinga við efnahagsvandanum og krónunni sé Evrópusambandið. Það bendir til þess að áherslur Frjálslynda flokksins eigi sér mikinn hljómgrunn meðal þjóðarinnar og að samningsmarkmið annarra flokka séu óljósari í huga hennar.

Athugasemdir