Á að selja kvótann til útlendinga?

Pistlar
Share

Ríkisstjórnin hefur skipað nefnd til þess að endurskoða gildandi lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Lögin eru frá vordögum 1991 og voru sett í aðdraganda samningsins um evrópska efnahagssvæðið til þess einmitt að tryggja forræði landsmanna yfir nýtingu á þessari helstu auðlind landsins.

Einungis íslenskir ríkisborgarar og aðrir íslenskir aðilar mega stunda fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands og eiga og reka fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða hér á landi. Lögaðilar verða að vera að öllu leyti í eigu íslenskra aðila eða aðila sem eru yfirráðum íslenskra aðila. Það takmarkar mjög möguleika erlendra aðila til þess að eiga hlut í íslensku fyrirtæki í sjávarútvegi og sá hlutur verður að vera lítill.

Nefndaskipunin vekur upp spurningar um það hvað vakir fyrir ríkisstjórninni. Stendur til að opna sjávarauðlindina fyrir erlendum aðilum eins og gert var með orkuauðlindina á sinum tíma þegar íslendingar gengu í EES? Í morgun innti ég sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eftir því í fyrirspurnartíma á Alþingi hver afstaða hans væri til fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi. Svör ráðherrans voru mjög skýr. Hann leggst gegn breytingum á þessari stefnu og vill ekki breyta lögunum hvað sjávarútveginn varðar. Það verður að telja líklegt að hann tali fyrir ríkisstjórnina og að lögin verði því óbreytt hvað sjávarútveginn varðar.

Ég tel það fagnaðarefni og til marks um það að vaxandi stuðningur er við þá stefnu Frjálslynda flokksins að standa vörð um forræði landsmanna yfir fiskistofnunum og fiskveiðilögsögunni. Liður í því er að viðhalda takmörkunum erlendra aðila í fjárfestingum í sjávarútvegi. Um þetta má lesa í nýlegri ályktun þingflokksins um efnahagsmál og aðild að ESB, en þar áréttar þingflokkurinn andstöðu við aðild að ESB eða aðildarviðræður m.a. af þeim sökum að þá verður ekki hægt að viðhalda núverandi reglum um fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi og slíkt sé stórhættulegt í því framseljanlega kvótakerfi sem við lýði er.

Eindregnir stuðningsmenn Evrópusambandsaðildar eru greinilega að átta sig á því að það þýðir ekki að bjóða upp á ESB aðild nema á þeim forsendum sem þingflokkur Frjálslynda flokksins hefur lagt um fullt og óskorað forræði Íslendinga á sjávarauðlindinni og nýtingu hennar. Það má meðal annars lesa í nýlegri blaðagrein Eiríks Bergmanns Einarssonar í Fréttablaðinu þar sem hann í raun viðurkennir þessi sjónarmið og veltir fyrir sér mögulegri lausn þar sem ESB verður að víkja frá sinni stefnu.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur nú bæst í hópinn og ég sé ekki annað en að hinn stjórnarflokkurinn, Samfylkingin , verði að virða núverandi stefnu Alþingis varðandi aðild útlendinga að sjávarútveginum. Það skal þó tekið fram að af þeirra hálfu hafa ekki komið fram yfirlýsingar um að flokkurinn vilji opna sjávarútveginn fyrir erlendum fjárfestingum, en vilji til aðildar að ESB felur að öðru jöfnu í sér samþykki fyrir því að opna sjávarútveginn fyrir erlendum eignaraðilum.

Niðurstaða mín er að endurskoðun laganna frá 1991 muni beinast að öðrum ákvæðum þeirra en fjárfestingu í sjávarútvegi. Þar verði stefna óbreytt. Útlendingum verður ekki seldur kvótinn í bráð. Málflutningur þingmanna Frjálslynda flokksins á þessum vetri hefur skipt verulegu máli.

Athugasemdir