Um miðja vikuna lagði forysta Alþýðusambands Íslands fyrir ríkisstjórnina hugmyndir sambandsins um aðgerðir ríkisvaldsins til þess að greiða fyrir kjarasamningum. Það vekur sérstaka athygli okkar þingmanna Frjálslynda flokksins að hryggjarstykkið í tillögum ASÍ eru skattatillögurnar sem við höfum flutt á Alþingi nú í haust og er að finna á þingskjali 15.
Þar er lagt til að taka upp sérstakan persónuafslátt sem einungis lágtekjufólk myndi fá og kemur hann til viðbótar núverandi persónuafslætti og leiðir til þess að launamaður með tekjur að 150 þúsund kr. á mánuði mun ekki greiða skatt. Í frumvarpi okkar fjórmenningana er gert ráð fyrir að sérstaki persónuafslátturinn fari lækkandi með vaxandi mánaðartekjum og falli niður við 250 þúsund kr. mörkin. ASÍ leggur til sömu útfærslu en miðar efri mörkin við 300 þúsund kr. á mánuði. Fyrir vikið verða tillögur ASÍ dýrari en Frjálslynda flokksins en ekki liggur fyrir hver munurinn gæti verið.
Alþyðusambandið hefur fram til þessa lagt áherlsu á allt aðra leið til þess að ná fram lækkun skatta á lágtekjufólk , sem felst í a.m.k. einu lægra skattþrepi. Stjórnvöld hafa tekið þeirri leið illa og er það að vonum. Slík útfærla mun flækja skattkerfið og vera kostnaðarsöm. Þegar við vorum að móta tillögur Frjálslynda flokksins fyrir Alþingiskosningarnar í vor varð það niðurstaða okkar að mun betra væri að fara þá leið að hafa sérstakan persónuafslátt og kerfið að öðru leyti óbreytt til þess að ná fram kjarabótum fyrir lágtekjufólk og sérstaklega aðdraða og öryrkja. Þessar skattaáherslur voru kosningamál okkar sem var fylgt eftir með sérstöku frumvarpi eins og fyrr er getið.
Greinilegt er að forysta ASÍ hefur skipt um skoðun og tekið upp nánast sömu tillögur og er að finna í frumvarpi okkar. Ég efa það ekki að ASÍ hefur kynnt sér frumvarp okkar og málflutning í vor og er ekkert nema gott eitt um það að segja ef hann hefur haft áhrif og leitt til stefnubreytingu ASÍ. Þessi leið er miklu aðgengilegri fyrir stjórnvöld og líklegri til þess að ná fram að ganga en gamla leiðin með mörg skattþrep.
Það er sérstaklega athyglisvert að tvö helstu þingmál þingmanna Frjálslynda flokksins á þessu hausti hafa fengið miklar og góðar undirtektir. Tillögum í frumvarpi þingmanna Frjálslynda flokksins um bætt kjör ellilífeyrisþega og öryrkja með því að afnema tengingu bótaþega við tekjur maka síns og að afnema skerðingu bóta vegna viðbótarlífeyrissparnaðar hefur ríkisstjórnin tekið upp á sína arma og boðar lagabreytingar eftir áramót og nú tekur forysta ASÍ upp skattatillögur okkar og vill fá ríkisstjórnina til þess að fallast á þær og greiða þannig fyrir kjarasamningum.
Þetta er mikil viðurkenning fyrir málflutning okkar þingmanna Frjálslynda flokksins á haustþinginu og staðfestir að við höfum verið að flytja skynsamar tillögur til þess að draga úr vaxandi misskiptingu í þjóðfélaginu. Við fögnum þessum árangri , en bendum á að við eigum fleiri góð frumvörp á þinginu.
Athugasemdir