Þá er búið að reyna í annað sinn kjördæmafyrirkomulagið sem ákveðið var í byrjun aldarinnar. Kjördæmunum var þá fækkað úr 8 í 6, fjöldi þingmanna í hverju og einu var hafður sem næst því sá sami, 10 þingmenn í landsbyggðarkjördæmunum þremur og 11 í höfuðborgarkjördæmunum þremur. Munur á vægi atkvæða eftir kjördæmum var minnkaður verulega og verður nú aldrei meiri en 1:2.
Með því að hafa fjölda þingmanna sem jafnastan næst sá ávinningur að það verður nokkurn veginn jafnerfitt að fá þingmann kjörinn í öllum kjördæmum, en áður þurfi aðeins um 5% atkvæða í Reykjavík til þess að ná kjöri þar en nærri 20% atkvæða í flestum landsbyggðarkjördæmunum.
Þetta kerfi stóðst hins vegar ekki lengi vegna íbúaþróunarinnar. Mikil fjölgun í Suðvesturkjördæmi og frekar fólksfækkun í Norðvesturkjördæmi leiddi af sér að færa varð eitt þingsæti frá því í Suðvesturkjördæmið. Því voru aðeins 9 þingmenn kjörnir í Norðvestrinu en 12 í Suðvesturkjördæmi. Fyrirsjáanlegt er að annað þingsæti muni færast fyrir næstu Alþingiskosningar 2011 og þá verða aðeins 8 þingmenn í Norðvesturkjördæmi en 13 í Suðvesturkjördæminu. Augljóst er að brostin er ein aðalforsendan fyrir kjördæmabreytingunni.
Annað er að flestum orðið ljóst, hygg ég, að landsbyggðarkjördæmin eru alltof stór. Það er ekki þingmönnum ætlandi með góðu móti að sinna þeim með fullnægjandi hætti og að auki er veruleg innbyrðis togstreita milli byggðarlaga og landshluta. Reyndar má segja það sama um Suðvesturkjördæmi, en þar kom berlega í ljós í prófkjörum flokkanna að kosið var í miklum mæli eftir sveitarfélögum og búsetu frambjóðenda.
Loks verður úthlutun jöfnunarsæta oft og tíðum í litlum tengslum við úrslit í einstökum kjördæmum vegna þeirrar ákvörðunar að festa jöfnunarsætin fyrirfram við kjördæmin.
Ég tel að núverandi kerfi sé fullreynt og það skapi fleiri vandamál en það leysir. Kjördæmafyrirkomulag er nauðsynlegt að öðrum kosti er landsbyggðin sett í þá stöðu að geta ekki valið sér þingmenn og að auki er hætt við að miðstjórnarvald stjórnmálaflokkanna yrði óbærilegt ef landið verður eitt kjördæmi.
Því á áfram að skipta landinu í kjördæmi en þau eiga að vera fleiri og smærri en nú er og öll með sömu þingmannatölu. Þá á að taka jöfnunarsætin, fjölga þeim og losa þau frá kjördæmunum og setja á einn landslista. Kjördæmin gætu verið á bilinu 8 – 12 með 3 – 4 þingmönnum hvert. Skiptingin í kjördæmi tryggði dreifbýlinu áfram aukið vægi en yrði áfram þó ekki umfram 1:2.
Af landslista yrðu kosnir allmargir þingmenn, nægilega margir til þess að tryggja jöfnuð atkvæða eftir flokkum og sett markmið í jöfnuði milli dreifbýlis og þéttbýlis. Heildarfjöldi þingmanna yrði áfram 63 eða sem næst því. En það verður að athuga að ef ná á markmiðum um jöfnuð milli flokka og kjördæma verður heildarfjöldinn að vera sveigjanlegur eftir úrslitum, annars koma sömu dæmin upp um ójafnt vægi og urðu í kosningunum á laugardaginn.
Frjálslyndi flokkurinn má una því að fá færri þingsæti en honum ber vegna þess að jöfnunarsætin eru of fá og Samfylkingin lendir í því í jöfnunarþingmenn hennar eru ekki í þeim kjördæmum sem fylgi flokksins segir til um af því að jöfnunarsætin eru föst í kjördæmum og færast ekki á milli eftir úrslitum. Landslisti leysir þennan vanda. Hverjum flokki yrði úthlutað af landslista þeim fjölda þingsæta sem vantar upp á að flokkurinn nái þeim fjölda sem atkvæðin á landsvísu segja til um, eftir að úrslit í kjördæmunum liggja fyrir.
Þessi útfærsla býður upp á þá skemmtilegu lausn, ef vilji er til þess, að hver kjósandi fái tvo atkvæðaseðla. Annan til þess að kjósa í kjördæminu og hinn til þess að kjósa á landslistanum. Kjördæmakosningin gæti þá verið meira persónubundin en nú er og landsatkvæðið nýtti kjósandinn þá meira til þess að velja stefnu. Líklega er þetta ágæt málamiðlun milli kjördæmafyrirkomulagsins og þess að hafa landið eitt kjördæmi.
Athugasemdir