Þá er þessi stranga kosningalota búinn. Niðurstaðan er að Frjálslyndi flokkurinn hélt velli, bæði á landsvísu og í kjördæminu. Flokkurinn fékk 7,3% atkvæða í heild sem er nánast það sama í fyrir 4 árum og 4 þingmenn eins og þá. Aðeins liðlega 100 atkvæði vantaði til þess að fá 5. þingmanninn kjörinn og fyrir vikið eru flest atkvæði á bak við hvern þingmann Frjálslynda flokksins. Í Norðvesturkjördæmi hlaut flokkurinn 13,6% greiddra atkvæða og 2 þingmenn eins og áður.
Þetta eru þriðju kosningarnar í röð sem flokkurinn fær þingmenn kjörna og segja má að hann hafi fest sig í sessi sem stjórnmálaflokkur á landsvísu. Vissulega var að því stefnt að auka við fylgið og rjúfa 10% atkvæðamúrinn en það tókst ekki að þessu sinni. Ástæðan er augljóslega klofningur sem varð í upphafi árs. En á hinn bóginn blasir líka við að flokknum tókst að komast frá þeim átökum með óbreytt fylgi og sama þingstyrk. Það er góður árangur í sjálfu sér og menn geta borið höfuðið hátt eftir kosningabaráttuna.
Margir lögðu sitt af mörkum til þess að gera þennan árangur mögulegan, frambjóðendur stóðu sig vel, eins og starfsmenn og kosningastjóri og ekki síst fjölmargir sjálfboðaliðar um land allt sem voru óþreytandi í hugsjónastarfi sínu. Formaður flokksins leiddi baráttuna eins og sannur skipstjóri og stóð sig einstaklega vel, sérstaklega undir lokin í kappræðuþáttum.
Tveir nýir þingmenn koma í þingflokkinn, Jón Magnússon og Grétar Mar Jónsson og þeir eiga eftir að standa sig vel, á því er enginn vafi. En lakara er að þrír þingmenn náðu ekki endurkjöri, þeir Magnús Þór Hafsteinsson, Sigurjón Þórðarson og Valdimar L. Friðriksson. Engu að síður stóðu þeir sig vel, rétt eins og Kolbrún Stefánsdóttir ritari flokksins, sem leiddi framboðslistann í Suðvesturkjördæmi og geta þau öll verið sátt við sitt framlag þótt við öll séum ósátt við úrslitin í þeirra kjördæmum.
En það þýðir ekki að dvelja um of við það sem liðið er heldur stefna fram á við og fylkja liði til sóknar næstu fjögur árin. Þau fjögur verða öll mikilvæg í því starfi sem mun leiða til góðrar kosningaúrslita eftir 4 ár og vonandi að við njótum krafta þeirra áfram.
En niðurstaðan er þessi: flokkurinn hélt velli og stendur styrkum fótum í íslenskum stjórnmálum.
Að lokum vil ég færa öllum bestu þakkir fyrir sitt framlag í kosningabaráttunni og ódrepandi baráttuhug og alveg sérstaklega í Norðvesturkjördæmi. Þar fékk flokkurinn tvo þingmenn kjörna eins og fyrir 4 árum, þrátt fyrir fækkum þingsæta í kjördæminu. Það var feiknarlega góður árangur.
Athugasemdir