Þá er lokið fyrri hluta 29. flokksþingsins. Nýr forysta var kosin og síðan þinginu frestað fram í febrúar á næsta ári. Þá verður málefnastörfin og lagðar línurnar fyrir komandi alþingiskosningar. Það fer ekki milli mála að þetta verður lengsta flokksþing sögunnar, kemur til með að standa yfir í rúmlega hálft ár og fer af þeim sökum í sögubækurnar.
Ég hafði boið mig fram til embættis ritara, en þegar tæplega sextugir karlmenn höfðu verðir kosnir til forystu í formanns og varaformannsembættisins ákvað ég að draga framboðið til baka. Í þriggja manna forystusveit flokksins verður að vera fólk af báðum kynjum og með meiri aldurdreifingu en hefði orðið ef ég hefði valist til að gegna starfinu með þeim Jóni Sigurðssyni og Guðna Ágústssyni. Ég segi bara eins og Jóhanna Sigurðardóttir forðum – minn tími mun koma.
Þrátt fyrir að lítið málefnastarf færi fram að þessu sinni var samþykkt stjórnmálaályktun. Tvennt vil ég benda á. Í fyrsta lagi er ályktað mjög ákveðið um Íbúðalánasjóð, segir að flokkurinn leggi áherslu á hið mikilvæga hlutverk Íbúðalánasjóðs, sem er að tryggja til frambúðar þau samfélagslegu markmið sem flokkurinn hefur staðið vörð um, að tryggja jafnrétti til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum, óháð búsetu og efnahag. Þetta er skýrt svar við kröfum aðalseðlabankastjóranns um lagasetningu fyrir áramót sem ætlað er að veikja sjóðinn og færa viðskiptabönkunum þennan lánamarkað á silfurfati. Það er ekki vilji framsóknarmanna og ég varð þess áskynja á þinginu að menn eru mjög ákveðnir í þessu máli. Það væri mikið óráð að hrófla við Íbúðalánasjóði.
Í öðru lagi er lögð áhersla á að ljúka endurskoðun stjórnarskrárinnar og afgreiða þær breytingar sem sátt er um og að umræða um ágreiningsatriði tefji ekki nauðsynlegar umbætur. Það þýðir að ekki eigi að leggja í breytingar á málskotsrétti forseta Íslands og sjálfstæðismenn fá ekki stuðning til þess að knýja þær fram í ágreiningi.
Um nokkurt skeið hefur verið áberandi að innan Sjálfstæðisflokksins eru menn sem vilja hafa áhrif á gang mála í Framsóknarmönnum í því skyni að tryggja Sjálfstæðisflokknum öruggan samstarfsflokk í ríkisstjórn. Ritstjóri Morgunblaðsins og Illugi Gunnarsson eru dæmi um menn sem beita sér af alefli fyrir þessu. Þótt samstarf flokkanna hafi að mörgu leyti gengið vel undanfarin áratug þá verður Framsóknarflokkurinn að gæta að því að hann hefur sótt fylgi sitt að verulegu leyti til félagslegra sinnaðra kjósenda.
Langt samstarf til hægri með mikilli marksvæðingu og einkavæðingu hefur ekki fallið þeim hluta kjósenda flokksins vel í geð. Kosningarannsóknir sýna að tæpur fjórðungur þeirra sem kaus Framsóknarflokkinn í kosningunum 1999 færði sig til Samfylkingar í kosningunum 2003 og um þriðjungur kjósendanna 1999 kaus einhvern af stjórnaandstöðuflokkunum 2003. Það er meginverkefni flokksins að vinna aftur tiltrú þessara kjósenda og það verður trauðla gert með því að festa sig við Sjálfstæðisflokkinn til lengri tíma.
Í þættinum Pressan á NFS í gær var meðal þátttakenda Steingrímur Ólafsson, fyrrverandi blaðafulltrúi í forsætisráðuneytinu. Hann leyfði sér að halda því fram að ég hefði boðið mig fram til formanns í Framsóknarflokknum á flokksþinginu í fyrra og einnig að ég hefði lagt til að leggja Framsóknarflokkinn niður og sameina Samfylkingunni. Hvort tveggja er rangt og það á Steingrímur að vita. Viti hann það ekki hefur hann ekki verið starfi sínu vaxinn. Mér er spurn hvað honum gengur til og hverjum hann telur sig vera að vinna gagn með svona málflutningi.
Athugasemdir