Liðin eru 3 ár frá innrásinni í Írak. Stríðið gekk vel, sigur vannst fljótt á herjum Husseins og að 6 vikum loknum var því lýst yfir að sigur væri unninn og átökum lokið. Saddam Hussein hefur verið steypt af stóli og réttarhöld standa yfir þar sem hann svarar til saka fyrir glæpi sína.
En það er enginn friður í Írak, bara ofbeldi og morð. Það er talið að 34 þúsund til 38 þúsund óbreyttir borgarar hafi fallið í landinu, flestir síðan stríðinu lauk. Síðustu vikur hefur mannfallið verið meira en nokkru sinni. Um 50 – 60 manns falla daglega í átökum og sprengjuárásum. Kjörin yfirvöld í Írak ráða ekkert við ástandið.
Erlendir herjir með langt á annað hundrað þúsund hermenn geta ekki stillt til friðar. Fyrir fáum dögum stóð bandaríski herinn fyrir lofárásum á borg fyrir norðan Bagdag. Lauk ekki stríðinu 1. maí 2003? Það geysar borgarastyrjöld í landinu, þar sem Írakar berjast við Íraka.
Fleiri Írakar eru drepnir en var í tíð Saddams Hussein. Hver mun draga morðingjana fyrir dómstóla? Hverjir munu taka völdin þegar innrásarherjirnir fara úr landi eða á kannski að segja hrökklast úr landi?
Þeir sem réðust inn í Írak eiga mikið verk fyrir höndum ef þeir ætla að skila af sér sæmilega friðvænlegu þjóðfélagi í Írak. Ástandið er verra nú en meðan Saddam var og telja þó fáir eftirsjá af honum í Írak eða annars staðar.
Það var ráðist inn í Írak vegna þess að Saddam Hussein réði yfir gereyðingarvopnum. Það reyndist ósatt. Vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna fundu ekkert og báðu um meiri tíma til þess að leita af sér allan grun. Það fengu þeir ekki. Það var ekki verið að leita sannleikans.
Það var ráðist inn í Írak vegna þess að Hussein tengdist Al Kaida. Það reyndist líka rangt. Engu gögn voru til um það þá og engin eru til eftir innrásina.
Samkvæmt ákvæðum alþjóðalaga var nauðsynlegt að fá samþykki Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir innrásinni. Það fékkst ekki þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Þá var gripið til þess að skálda upp nýja túlkun á eldri samþykktum Öryggisráðsins.
Forsprakkarnir, einkum Bandaríkjamenn, hafa sniðgengið alþjóðasamninga um meðferð stríðsfanga og búið til nýjar skilgreiningar og nýjar túlkanir til þess að hunsa ákvæði samninganna.
Fyrir innrásinni í Írak hafa staðið menn, sem eru uppvísir að því að fara sínu fram í blóra við lög og reglur. Þeir hafa líka átt í sífellt meiri vandræðum heima fyrir gagnvart almenningi og síðasta hálmstráið þeirra er að vísa til Guðs. Hann hafi staðið að ákvörðuninni með þeim og þeir njóti handleiðslu Hans. Þarna er auðvitað átt við Bush og Blair.
Það er áfall fyrir lýðræðið að þessir atburðir skulu geta hafa gerst. Áfallið fellst kannski mest í því að ráðamennirnir, bæði B-in tvö og reyndar fleiri, skuli ekki hafa virt lýðræðislegu leikreglurnar, heldur litið á þær sem hindrun fyrir vilja sínum og að þeim væri heimilt að beita öllum ráðum til þess að sniðganga leikreglurnar. Og það væri afsakanlegt vegna þess að lýðræðið víkur fyrir “guðlegum” vilja.
En mórallinn er sá að lýðræðið er besta leiðin sem við höfum. Leiðin frá Írak liggur um lýðræðið.
Athugasemdir