Hlutafélagavæðingu RÚV hafnað.

Pistlar
Share

Menntamálaráðherra boðar frumvarp á Alþingi um Ríkisútvarpið fyrir næstu jól og gerir ráð fyrir því að rekstrarfyrirkomulagi RÚV verði breytt. Samkvæmt frétt Bylgjunnar segir ráðherrann að verið sé að skoða hvort verði fyrir valinu, að gera Ríkisútvarpið að einkahlutafélagi eða sameignarfélagi.

Það þykir mér hraustlega mælt í ljósi þess að hlutafélagavæðingunni hefur verið hafnað. Flokksþing Framsóknarflokksins 2001 ályktaði orðrétt "Ríksútvarpinu verði ekki breytt í hlutafélag" og sú samþykkt stendur enn óhögguð. Á næsta flokksþingi, sem var 2003, var bætt við að "breyta skal rekstrarformi Ríkisútvarpsins í sjálfseignarstofnun". Loks var ályktað á þessi ári á flokksþingi Framsóknarflokksins að " mikilvægt er að Ríkisútvarpið verði áfram í þjóðareigu". Samþykktirnar eru í eðlilegu samhengi og mynda skýra stefnu flokksins. Síðari samþykktirnar styrkja þá fyrstu, sem hafnar hlutafélagavæðingu RÚV.

Menntamálaráðherra hefur sjálfur hafnað hlutafélagaforminu í frumvarpi um Ríkisútvarpið, sem hann flutti á Alþingi á síðasta þingi. Þar var lagt til að breyta RÚV í sameignarfélag en ekki hlutafélag. Rökin gegn hlutafélagaforminu voru þau að Ríkisútvarpið hafi sérstöðu, það eigi að vera í þjóðareigu. Orðrétt segir í frumvarpinu: "Ástæða þess er sú að Ríkisútvarpið hefur sérstöðu -hér er um að ræða félag sem ekki ráðgert að selja". Það er kjarni málsins, samband er milli hlutafélagaformsins og sölu útvarpsins. Það segir menntamálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og sambandið er það, að hlutabréf eru og verða seld, í ríkisútvarpi sem öðru hlutafélagi. Skýrara verður málið ekki.

Þegar menntamálaráðherra segir nú, að hlutafélagaleiðin sé til skoðunar, hefur Ríkisútvarpið ekki lengur, að hans mati, þá sérstöðu að ekki sé ráðgert að selja það. Hlutafélagaformið er fyrst og fremst sölufyrirkomulag, það býr til seljanlega hluti. Breytingar á núverandi rekstrarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins er hæglega unnt að gera með breytingum á lögum um stofnunina. Það þarf ekki hlutafélagaform til þess. Sameignarformið, sem ráðherra lagði til á síðasta þingi, er afleitt fyrirkomulag, en leiðin frá því liggur ekki til hlutafélags. Seint verður það talið skynsamlegt að fara úr öskunni í eldinn.

Það sem eðlilegast er að gera er að huga að úrbótum á núverandi fyrirkomulagi eða þá að gera stofnunina að sjálfseignarstofnun, sem ég tel bestu leiðina. Því mega menn ekki gleyma að skoðun Sjálfstæðisflokksins á Ríkisútvarpinu er minnihlutaskoðun, bæði á Alþingi og í þjóðfélaginu. Flokkurinn er einangraður í þessu mikilsverða máli og ekkert réttlætir að gera honum kleift að koma því fram.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu í dag.

Athugasemdir