Flokksþing Framsóknarflokksins

Greinar
Share

Flokksþingi Framsóknarflokksins lauk fyrir rúmri viku. Þingið var vel sótt og afkastamikið. Margir starfshópar störfuðu og skiluðu af sér fjölmörgum ályktunum sem voru samþykktar. Sum mál voru umdeild eins og einkavæðing ríkisfyrirtækja og aðild að Evrópusambandinu, svo ekki sé minnst á lagabreytingarnar.

Ég stóð að flutningi þriggja tillagna. Þingið samþykkti stuðning við stofnun háskóla á Ísafirði og það innan þriggja ára. Þar með varð Framsóknarflokkurinn fyrsti stjórnmálaflokkurinn, það best ég veit, til þess að gera stofnun háskóla á Ísafirði að stefnumáli sínu. Sú stefnumörkun kemur í kjölfarið á samþykkt kjördæmissambands flokksins í Norðvesturkjördæmi. Nú er næsta skref að vinna málinu fylgi í ríkisstjórninni og ég vonast til þess að samstarfsflokkurinn fallist á framgang málsins. Margir sjálfstæðismenn hafa stutt stofnun háskóla og ég minni á að tveir þingmenn flokksins voru meðflutningsmenn að þingsályktunartillögunni sem ég flutti á Alþingi í fyrra ásamt fleirum, þeir Gunnar Birgisson og Einar Oddur Kristjánsson.


Þessi mynd af okkur hjónunum var tekin á flokksþinginu.

Tillaga um beina kosningu formanns flokksins hreyfði við mönnum og var samþykkt að fela framkvæmdastjórn flokksins að skipa nefnd til þess að taka tillöguna fyrir og skila áliti fyrir næsta flokksþing. Málið verður því til umræðu innan flokksins fram að næsta flokksþingi. Ég tel það óhjákvæmilegt að opna kjör í um forystumann flokksins, sérstaklega eftir þau átök um fulltrúa sem hafa verið bersýnileg í Kópavogi. Með beinni kosningu, þar sem allir flokksmenn, hafa áhrif er komið í veg fyrir átök af þessu tagi. Fulltrúalýðræðið er ekki takmark í sjálfu sér, heldur var það tekið upp vegna þess að beint lýðræði var ekki framkvæmanlegt nema í fáum tilvikum, eins og almennum kosningum. Framfarir síðustu aldar gera okkur kleift að færa fleiri ákvarðanir í hendur allra. Það á við um starf í stjórnmálaflokki ekki síður en í þjóðmálunum með því að beita þjóðaratkvæðagreiðslum, eins og nú er mikið rætt um og líklegt er að verði lagt til að opna fyrir slíkt með breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins. Þessi breyting eykur áhrif hvers flokksmanns og ætti að laða fleiri til starfa innan flokksins.

Loks flutti ég tillögu ásamt Steingrími Hermannssyni um friðun Þjórsárvera og hætta við frekari framkvæmdir á því svæði. Þungt var fyrir fæti, tveir ráðherrar mættu í starfshópinn og beittu sér af þunga gegn tillögunni. En þarft var að hreyfa málinu nú og það mun verða í pólitískri umræðu á komandi misserum. Forsendur eru nú verulega breyttar frá því sem var þegar umhverfisráðherra kvað upp sinn úrskurð um Norðlingaölduveitu. Þá var stækkun álvers Norðuráls í úlfakreppu, ef ekki fengist orkan sem með framkvæmdunum fæst, nú hefur það verið leyst með Hellisheiðarvirkjun og við getum farið yfir málið í heild sinni og gefið okkur tíma til þess. Ég er þeirrar skoðunar að við getum sparað okkur frekari framkvæmdir á þessu svæði, nóg er af öðrum góðum kostum til virkjunar.

Athugasemdir