Íslenska þjóðin er staðföst í andstöðu sinni við stríðið í Írak. Það er sama hver spurningin er, svarið sýnir víðtæka andstöðu. Gallupkönnun í desember síðastliðnum staðfestir að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er andvígur því að Íslendingar séu á lista hinna viljugu og staðföstu þjóða. Spurt var: Á Ísland að vera á lista með þeim þjóðum, sem styðja hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna og Breta í Írak, eða á Ísland ekki að vera á listanum ? Svarið er að 84% landsmanna er á móti því, aðeins 14% vilja það. Skýrar getur svar íslensku þjóðarinnar ekki verið. Eftir alla umræðuna og málsvörn þeirra, sem styðja stríðsreksturinn, er afstaða þjóðarinnar í meginatriðum óbreytt frá því sem var í upphafi, reyndar virðist andstaðan heldur hafa vaxið. Skömmu áður en innrásin var gerð, eða í febrúar 2003, kom fram í Gallup könnun að um 75% þeirra sem afstöðu tóku voru andvíg hernaðaraðgerðum í Írak og rúmlega 76% þjóðarinnar voru andvígir stuðningi Íslands við innrásina í könnum sem Fréttablaðið gerði fáum dögum eftir að innrásin hófst.
andstaða framsóknarmanna
Allar tilvitnaðar þrjár kannanir sýna mikla andstöðu stuðningsmanna Framsóknarflokksins. Fréttablaðskönnunin sýndi að 63% kjósenda Framsóknarflokksins voru andvígur stuðningi Íslands við innrásina, sem jafngildir 70%, ef aðeins eru teknir þeir sem tóku afstöðu. Í eldri Gallupkönnuninni voru 70% framsóknarmanna andvíg hernaðaraðgerðum í Írak og nú eru 80% kjósenda Framsóknarflokksins á móti því að Íslendingar séu á lista hinna staðföstu og viljugu þjóða samkvænt nýju Gallup könnuninni. Í spurningu Gallup í febrúar 2003 um stuðning við hernaðaraðgerðir kom ennfremur fram að 54% kjósenda Framsóknarflokksins vildu ekki undir neinum kringumstæðum styðja hernaðaraðgerðir og 34% studdi aðgerðir ef þær væru með stuðningi Sameinuðu þjóðanna. Sérstaklega athyglisvert er að aðeins 9% framsóknarmanna studdu það sem síðar varð, hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna og Breta.
þátttakendur í stríði ?
Spyrja má hvaða þýðingu það hefur að vera á lista hinna staðföstu ? Bush Bandaríkjaforseti lítur svo á að þær þjóðir séu þátttekendur í stríðinu í Írak. Í kappræðunum við Kerry í byrjun október sagði hann samkvæmt fréttum Ríkissjónvarpsins 9. október sl.: "Stundum þarf að taka óvinsælar ákvarðanir af því að maður telur þær réttar. Við höldum þessu áfram. Þrjátíu þjóðir taka þátt í stríðinu í Írak." Ég fæ ekki betur séð en að Bandaríkjaforseti sé þarna að vísa til lista hinna staðföstu þjóða en einmitt 30 þjóðir voru á honum, þar á meðal Ísland. Ég ætla þeim, sem tóku ákvörðun af Íslands hálfu, ekki að þeir líti svo á að Íslendingar séu beinir þátttakendur í stríðinu, en það virðist hins vegar vera skilningur Bandaríkjaforseta. Sem fyrst þarf að eyða þessum skilningi Georg W. Bush. Þá vaknar spurning um hvað felst í því að Ísland er á umræddum lista ? Líklegasta svarið er að það sé pólitísk yfirlýsing um stuðning við innrásina. En þá blasir við, að sú pólitíska yfirlýsing nýtur ekki stuðnings, hvorki kjósenda stjórnarflokkanna né almennings og hefur aldrei haft. Íslenska þjóðin hefur alla tíð verið staðföst í andstöðu sinni og er ekki rétt að hún ráði þessu ?
Athugasemdir