Síðan kom kvótakerfið

Greinar
Share

Þeir einir fengu kvóta, sem til þess höfðu unnið

Engin félagsmálastofnun er fyrirsögn viðtals við Þorstein Vilhelmsson í Mbl. 24. maí sl. Í viðtalinu sendir hann mér tóninn fyrir hugmyndir um byggðakvóta eða svæðisbundin kvóta og kallar mig kommúnista fyrir vikið. Reyndar gefur hann stjórnmálamönnum ekki háa einkunn biður guð að hjálpa sér ætli þeir að úthluta kvóta. Minna má nú ekki vera en að kvitta fyrir sendinguna. Ég held að það sé best gert án stóryrða og jafnvel að best fari á því að Þorsteinn sjálfur og félagar hans tali fyrir sig.
Þorsteinn telur að kvótakerfið sé gott fiskveiðistjórnunarkerfi og rekur í viðtalinu að þegar hann og frændur hans keyptu togarann Guðstein sem nú heitir Akureyrin árið 1983 hafði skipið legið í reiðileysi í höfninni í níu mánuði og enginn vildi eiga skipið. En síðan kom kvótakerfið og fiskveiðarnar urðu fyrir vikið arðbærari og hann bætir við: "þegar við byrjuðum með Akureyrina, held ég að það hafi verið fleiri sem vorkenndu okkur fyrir að fara út í þetta glæfraspil, en þeir sem öfunduðu okkur.Þeir sem ekkert höfðu viljað á sig leggja áður, hófu síðan kórinn, vildu komast inn og sögðu að kvótinn hefði verið gefinn. Þeir einir fengu kvóta sem til þess höfðu unnið." Það er einmitt það, þeir höfðu kjarkinn , lögðu mikið á sig og tóku áhættuna og unnu með kerfinu eða eins og Þorsteinn segir í viðtalinu: "Samherji er gott dæmi um það sem hægt var að gera og aðrir hefðu einnig getað gert. Hefðu menn tekið þá stefnu að vinna með kvótakerfinu og nýta sér það, sem þar var í boði" og sendir Vestfirðingum eitraða pillu.
Fyrst var vandi …
Annað hljóð var í strokknum við upphaf kvótakerfisins. Í viðtali við Mbl. 14. des. 1983 lýsti Þorsteinn Vilhelmsson því að kvótinn ylli meiri vanda en hann leysti. "Ég vil hvorki sjá, heyra né ræða um kvótann eins og hann er hugsaður nú. Ég hélt að það væri andstætt stefnu Sjálfstæðisflokksins að koma á slíku kerfi." Aðspurður sagðist hann efast um að Akureyrin fengi nokkurn kvóta úthlutaðan á næsta ári vegna þess að næstliðin þrjú ár hefði skipið nánast ekkert verið að veiðum. Hann taldi því nær að miða við stærð skipa. Til dæmis þyrfti Akureyrin að fiska um 4.000 lestir á ári, þar af helminginn þorsk, til að bera sig. Þorsteinn Már Baldvinsson lýsti sömu viðhorfum í Degi 6. janúar 1984. Hann væri á móti kvótafyrirkomulagi við fiskveiðar, slíkt leiddi til áhugaleysis meðal áhafnar og skipstjóra og bætir við. "Verði það úr að hér verði tekið upp kvótakerfi þá er fáránlegt að miða kvótann undantekningarlaust við afla skipsins undanfarin þrjú ár. Við getum tekið Þorstein Vilhelmsson frænda minn sem dæmi. Á hann að gjalda þess að hann er kominn með vel búið og endurbætt skip í hendurnar. Á hann einungis að fá að veiða einhverja hungurlús, af því að skipið hefur verið lítið að veiðum þessi þrjú ár, þrátt fyrir að hann hafi verið einn af aflahæstu skipstjórum landsins á sama tíma en á öðru skipi? Hvaða réttlæti er í slíku?" Vandinn sem blasti við þeim frændum í árslok 1983 var að þeir höfðu keypt skip sem hafði afar litla aflareynslu og hlaut því að fá lítinn kvóta í sinn hlut þegar kvótakerfið var tekið upp árið 1984 og hvernig skyldi Þorsteinn Vilhelmsson og félagar hafa brugðist við? Með því að vinna með kvótakerfinu ?
svo var stjórnmálamaður …
Eða með því að snúa sér til stjórnmálamanna ? Það var að vísu ekki vænlegt því Þorsteinn segir að "stjórnmálamenn geta aldrei úthlutað kvóta nema með skít og skömm". En viti menn Halldór Blöndal þingmaður kjördæmisins dró ekki af sér og lýsti því í þingræðu 12. desember 1983 í umræðu um kvótafrumvarpið að"til þess að kvótakerfi á fiskveiðar sé réttlætanlegt er óhjákvæmilegt að taka tillit til óvenjulegra og sérstakra aðstæðna þeirra útgerðarmanna eða útgerða sem hafa lagt í nýja fjárfestingu, fest kaup á fiskiskipi og kanske lagt öðru. Ég veit dæmi þess að ungir menn hafa fest kaup á togara nýlega, kostað miklu til að endurbæta hann og lagt eignir sínar að veði í þeirri fullvissu að þeir hefðu sömu möguleika og aðrir til að bjarga sér þótt fyrri eigendum togarans hafi verið mislagðar hendur um aflabrögð. Í slíku tilviku er með öllu óverjandi að ákveða umræddu skipi aflakvóta eftir aflabrögðum þess meðan það var í eigu fyrri eigenda. Ég vil einnig taka fram að of einhliða viðmiðun til þriggja síðustu ára getur orðið mjög ranglát fyrir einstök byggðarlög eða landshluta." Þarna var kominn stjórnmálamaður sem skildi vanda þeirra og meira að segja vildi þá gæta byggðasjónarmiða eins og ég nú, og ekki er minnst á uppnefnið kommúnisti. Þessi áhugi á byggðasjónarmiðum við úthlutun kvóta hefur kannski tengst því að reynslan var þá mikil annars staðar en á Akureyri, t.d. á Vestfjörðum, hver veit.

loks kom skipstjórakvótinn …
Til að gera langa sögu stutta, þá voru fyrstu kvótalögin sett og í mars 1984 gefin út reglugerð sem veitti heimild til þess við tilteknar aðstæður að miða aflamark skips við aflareynslu skipstjórans í stað veiðireynslu skipsins. Skyndilega var Akureyrin komin með kvóta upp á 4.445 lestir og veiddi reyndar rúmlega 5.000 lestir á árinu. Samherja hf var borgið. Þetta kæmi sér vel fyrir marga í dag, en líklega yrði einhver súr því eins og allir vita, ef einn fær kvóta er þá hann tekinn af öðrum og því verða þeir sem kaupa skip í dag að gjöra svo vel að kaupa kvótann. Það er nefnilega eins og Þorsteinn Vilhelmsson, einarður stuðningsmaður kvótakerfisins, segir í Morgunblaðinu: þeir einir fengu kvóta sem til þess höfðu unnið.
Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir