Hallað réttu máli

Pistlar
Share

Í leiðara Morgunblaðsins þriðjudaginn 18.desember stendur:

"Hvers vegna hafa þingmenn allra flokka gefizt upp fyrir þrýstingi útgerðarmanna
og tekið stórt skref afturábak eftir að hafa samþykkt merka löggjöf um auðlindagjald fyrir nokkrum árum?"

Það er ómaklegt að setja þingmenn Frjálslynda flokksins undir sama hatt og aðra alþingismenn þegar fyrir liggur að þeir, einir þingmanna, greiddu atkvæði gegn lækkun veiðigjaldsins, bæði þeirri lækkun sem Sjávarútvegsráðherra lagði til og hinni sem meirihluti þingnefndarinnar bætti við.
Það er líka ómaklegt af hálfu Morgunblaðsins að láta eins og flokkurinn sé ekki til þegar fjallað er um málið í leiðara blaðsins eftir að tveir þingmenn flokksins tóku mikinn þátt í umræðum um lækkun veiðigjaldsins á Alþingi og skýrðu afstöðu sína og flokksins.

Grétar Mar Jónsson flutti sérálit sem sjávarútvegsnefndarmaður og skar sig frá öðrum nefndarmönnum sem kepptust við að yfirbjóða ríkisstjórnina í þjónkun sinni við kröfur forystu LÍÚ. Ég flutti yfirlitsræðu um veiðigjaldið og rakti forsöguna allt frá 2001 og samkomulagið sem gert var milli ríkisstjórnarinnar og LÍÚ um óbreytt kvótakerfi gegn veiðigjaldi.

Frjálslyndi flokkurinn vil breyta kvótakerfinu, það dylst engum, og meðal breytinganna er að flokkurinn vill setja löggjöf um viðskipti með aflamark og aflahlutdeild, þar sem ríkið mun taka sinn hlut eins og rakið var í kosningastefnuskrá flokksins fyrir Alþingiskosningarnar í vor sem leið. Sá hlutur verður miklu meiri en það hlægilega gjald uppá 1,45 kr fyrir hvert þorskkíló, sem hefur verið ákveðið. Að auki sendi þingflokkurinn frá sé ályktun í sumar þar sem fram kemur að opinbert eignarhald orkuauðlindanna og greiðsla til hins opinbera fyrir nýtingu orkulindanna er forsenda þess að hægt sé að fallast á einkavæðingu orkufyrirtækja. Hvað veldur því að Morgunblaðið lætur eins og ekkert þetta liggi fyrir?

Hitt tek ég undir með Morgunblaðinu að þingmenn annarra flokka keppast um að ganga í augum á forystu LÍÚ og hafa staðið að því að helminga veiðigjaldið og munu vafalaust hlýða kalli LÍÚ um afnám gjaldsins að fullu á næsta ári. Málflutningur þeirra á Alþingi á dögunum tekur af allan vafa um það.

Lengst ganga vildarvinir ritstjóra Morgunblaðsins, Vinstri grænir, og þeir lögðu sig fram um að sýna Sjálfstæðisflokknum í umræðunum á alþingi að þeir vilji ganga lengra en Samfylkingin í þessum efnum. Breytingum í löggjöf um stjórn fiskveiða er varpað fyrir róða í augljóslega illa dulbúnu bónorði til Sjálfstæðisflokksins um ríkisstjórnarsamstarf af hálfu Vinstri grænna.

Verði Morgunblaðinu að ósk sinni um nýja ríkisstjórn Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins mun veiðigjaldinu verða hent á haf út og engar breytingar verða gerðar á kvótakerfinu. Blaðið á enga bandamenn í þeim flokkum.

Athugasemdir