Betur má ef duga skal

Greinar
Share

Á tæpu ári hafa bæði kúfiskveiðiskip landsmanna farist, aðdragandi og aðstæður svipaðar í báðum tilvikum. Skipin full af kúfiski
og á heimleið að lokinni veiðiferð í blíðviðri. Báðum skipunum hvolfir og þau sökkva síðan á örskammri stundu. Nýlega er lokið
sjóprófum vegna síðara slyssins þegar Öðufellið frá Þórshöfn sökk. Engar skýringar komu fram á slysinu sem gætu upplýst það og
voru skipverjar sammála um að ekkert óvenjulegt hefði verið við hreyfingar skipsins. Enn liggja ekki fyrir niðurstöður úr sjóprófum
vegna Æsu ÍS en þar hafa ekki enn sem komið er a.m.k. komið fram haldbærar skýringar á orsökum þess að skipið fórst. Ekki er
útilokað að myndir sem teknar voru af flakinu við köfun niður í það fyrr á þessu ári geti varpað einhverju ljósi á atburðinn en því
miður er ekki mikil von til þess, skýringarnar væru líklega löngu komnar fram ef málið hefði upplýst við það.

Upplýsa þarf slysin

Sjóslys eru allt of tíð hér á landi, um það er enginn ágreiningur og allir sammála um að þeim þarf að fækka. Til þess að svo verði
þarf að upplýsa þau slys sem verða svo hægt verði að fyrirbyggja að þau endurtaki sig. Allt of mörg sjóslys eru óupplýst og þótt
ekki sé við því að búast að hægt verði að upplýsa öll slys í framtíðinni tel ég að miklu betur megi gera en verið hefur undanfarin ár.
Mjög áleitin spurning um þessar mundir er: hefði verið hægt að koma í veg fyrir að Öðufellið færist með því að vita hvers vegna
Æsan sökk? Spurningunni er ekki hægt að svara nú af eðlilegum ástæðum en augljóst er að ef orsök Æsuslyssins væri kunn hefði
útgerð og áhöfn Öðufellsins getað varast hana.

Stefnubreytingu þarf

Því miður get ég ekki hrósað stjórnvöldum fyrir þeirra þátt í að rannsaka Æsuslysið. Aðgerðir þeirra hafa einkennst af áhugaleysi,
aðgerðaleysi og úrræðaleysi. Sjóprófum var áfátt og engir tilburðir voru lengi vel til að rannsaka skipið. Sjö mánuðum eftir að
skipið sökk tók ég málið upp á Alþingi og viðbrögð ráðherranna voru athyglisverð. Samgönguráðherra upplýsti að sjóslysanefnd
hefði vakið athygli á því þá og reyndar áður að það gæti verið gagnlegt að ná upp skipi af hafsbotni en ríkisvaldið hefði aldrei
orðið við því. Skýringin væri sú að það kostaði mikla peninga að ná þeim upp. Utanríkisráðherra hafði það fram að færa að ekki
væri hægt að kafa niður að flakinu og byggði það á áliti setuliðsins á Miðnesheiðinni. Að þess mati lægi skipið of djúpt og fá þyrfti
sérþjálfaða kafara frá Bandaríkjunum til verksins og það væri of dýrt. Þá voru líka athyglisverð ummæli formanns sjóslysanefndar
sem í blaðaviðtali talaði gegn því að ná skipinu upp með þeim rökum að slíkt skapaði fordæmi. Þessi ummæli eru skiljanleg í ljósi
þeirrar stefnu ríkisvaldsins að ekki eigi að ná skipum af hafsbotni upp á yfirborð til þess að leita að skýringum á orsökum slysa. Sú
stefna er hins vegar algerlega óásættanleg. Almenna reglan á að vera sú að rannsaka flökin og lyfta þeim þar sem það er tæknilega
hægt og kostnaður viðráðanlegur. Þessi stefnubreyting þýðir að sjálfsögðu ákvörðun um að verja meira fé en áður í rannsóknir á
orsökum sjóslysa og í umræðunni á Alþingi sem ég vitnaði til kom það skýrt fram að alþingismenn sem til máls tóku voru einhuga
um þá stefnubreytingu.

Lyfta þarf Æsunni

Eins og fyrr er getið var sagt að ekki væri hægt að kafa niður í Æsuna. Það var rangt. Það hefur þegar verið gert. Það var líka
sagt að of dýrt væri að kafa niður, hvað þá að lyfta skipinu. Það er líka rangt. Komið hefur fram að kostnaðurinn er vel
viðráðanlegur. Þetta er fyrst og fremst spurning um vilja, ekki kostnað. Það þarf að lyfta Æsunni því flakið er á togslóð og það
sem mest er um vert, það eru helst líkur á því að rannsókn á flakinu geti gefið okkur skýringarnar sem okkur vantar á orsökum
þess að skipið fórst.

Athugasemdir