Í gær var baráttudagur verkalýðsins og það var frólegt að heyra í fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar. Á Akranesi voru hátíðarhöldin vel sótt og fóru vel fram. Aðalræðumaður dagsins var Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ.
Hann gerði að umtalsefni svokölluð félagsleg undirboð, sem eru einkum að útlendingum eru greidd lægri laun en innlendum fyrir sömu vinnu, að ekki sé minnst á dæmin um að erlendu launamönunum er gert að greiða stórfé fyrir húsnæði. Halldór var nokkuð harðorður um frammistöðu stjórnvalda sem honum fannst ekki standa sig nægjanlega í því að verja launakjörin á vinnumarkaðnum.
Það er greinilegt að verulegur misbrestur er á því að atvinnurekendur greiði erlendum starfsmönnum þau laun sem Íslendingar hafa fengið. Þarna kemur fram misræmið á milli umsaminna lágmarkstaxta og greiddra launa og erlendum launamönnum er greitt samkvæmt töxtum. Með öðrum orðum ekki eru lengur greidd sömu laun fyrir sömu vinnu.
Undanfarnar vikur hef ég fengið ábendingar frá fjölmörgum, einmitt um þetta atriði. Á það ekki síst við um iðnaðarmannastörfin. Algengustu tölurnar eru að útlendingum séu greiddar 800 – 900 kr. á tímann en hingað til hafi verið greddar 1200 – 1400 kr. Þarna eru atvinnurekendur að lækka launin um þriðjung í skjóli mismunandi launa- og velferðarstigs á Íslandi annars vegar og í heimalandi erlenda launamanns hins vegar.
Ábendingarnar koma úr mörgum iðnaðarmannastéttum og bent er á að þetta launamisræmi skapi fyrirtækjum, sem eingöngu greiða samkvæmt markaðslaunum, erfiðleika í samkeppni við hin fyrirtækin, sem hafa lægri launakostnað. Erfitt er án frekari upplýsinga að gera sér grein fyrir hversu víðtækt vandamál þessi launamunur er orðinn, en miðað við mínar eigin upplýsingar er það orðið mjög umfangsmikið.
Þarna þurfum við Íslendingar að svara því hvort það sé eðlilegt að sækja launamenn til ríkja, sem standa vestrænum velferðarríkjum langt að baki, og greiða þeim mun lægri laun en tíðkast hér á landi í skjóli þess að erlendu launamönnunum þyki þau eftir sem áður góð og eftirsóknarverð miðað við kjörin í eigin heimalandi.
Það finnst mér ekki, við eigum ekki að færa launin hér á landi niður á það stig lágmarkslaunataxta. Það má örugglega fá verkamenn frá Marokkó sem sætta sig við laun mun lægri en Pólverjar gera. Á það þá að vera í lagi og íslenskir atvinnurekendur að nýta sér það?
Nei, það eigin við ekki að gera, það er fyrir löngu búið að útrýma launamun eftir kynjum, a.m.k. samkvæmt umsömdum töxtum, og það á ekki að líða launamun eftir þjóðerni. Sömu laun fyrir sömu vinnu, það er málið og hvikum ekki frá því. Stöndum með erlendum launamönnum.
Athugasemdir