Röng fjölmiðlaumfjöllun bjargar Sjálfstæðsiflokknum

Pistlar
Share

Það ríður ekki við einteyming ruglandinn í pólitískri umræðu um
prófkjör Sjálfstæðisflokksins. Það stendur strókurinn upp úr hverjum
fréttamanninum á fætur öðrum um svonefnda slæma útreið kvenna
í Sjálfstæðisflokknum. Það er oft svo með grunnhyggna umræðu að henni
fylgir mikill gusugangur sem gerir fátt annað en að byrgja mönnum sýn á
hina augljósu skýringar sem ættu að vera aðalumfjöllunarefni fjölmiðla.

Í prófkjörum takast á metnaðarfullir einstaklingar um völd og metorð. Flokksmenn
sem taka þátt og velja sér frambjóðendur eru auðvitað fyrst og fremst
að horfa á einstaklingana og fyrir hvað þeir standa málefnalega. Þingmenn sem
freista þess að sækja sér endurnýjað umboð leggja verk sín í dóm kjósendanna.
Þessi atriði vega þyngst á metunum.

Þingkonurnar sem fóru halloka í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi féllu á því að verk þeirra féllu ekki í kramið. Iðnaðarráðherrann hefður allt kjörtímabilið verið í stökustu vandræðum með að leysa úr vandanum sem fylgir mikilli fjölgum ferðamanna. Satt best að segja
hefur ráðherrann ekki ráðið við verkefni sitt. Það eru því ekki nein óvænt tíðindi
að hún falli af sínum stalli og aðrir frambjóðendur settir þar í hennar stað.
Það má að einhverju leyti vera ósanngjarnt og ef til vill eigi fleiri ráðherrar og
forystumenn flokksins sinn þátt í pólitísku afglöpunum en iðnaðarráðherrann er
samt þar í fararbroddi og verður að bera ábyrgð á eigin forystu í málaflokknum.

Dæmd af verkum

Þegar því er slegið upp að konur hafi farið halloka er verið að sópa málefnalegum
ástæðum undir teppið. Svo mikilvægt sem það er að konur séu virkar og ráðandi
í stjórnmálum til jafns við karla þá á kynferðið aldrei að vera tylliástæða til þess
að gleyma verkum viðkomandi stjórnmálamanns.Það á auðvitað að vega og
meta hvern og einn sem einstakling að eigin verðleikum og verkum en ekki á
grundvelli kynferðis. Ef Ragnheiður Elín Árnadóttir hefði verið karlmaður og
með sömu vandræðaframmistöðuna hefði enginn fréttamaður gert athugasemd
við úrslitin í prófkjörinu.

Múslimaóttinn

Unnur Brá Konráðsdóttir var einnig metin í prófkjörinu fyrst og fremst á grundvelli
starfa sinna, en ekki kynferði. Hún hefur beitt sér fyrir breytingum á löggjöf
um útlendinga og hælisleitendur sem er í takt við áherslur erlendra mannúðarsamtaka
og ákvæði í mannréttindalöggjöf í Evrópu. Í þeim efnum hefur hún verið
að mörgu leyti óvenjulegur hægri maður og haft yfir sér alþjóðlegra yfirbragð
en tíðkast í Sjálfstæðisflokknum.

Afstaða Íslendinga hefur því miður einkennst af ótta og verulegri þröngsýni sem minnir um margt á þá eilífu smán íslenskra stjórnvalda , þegar þau sóttust eftir bandaríska setuliðinu á miðnesheiðinni, að fara fram á það að “svertingjar” yrðu ekki í hópi hermanna. Unnur Brá atti kappi
við annan þingmann Ásmund Friðriksson, sem ítrekað hefur á kjörtímabilinu
skipað sér í sveit þeirra sem vara við erlendum flóttamönnum og hefur lagt sig
fram um að gera múslima tortryggilega. Í prófkjörinu tókust þessi tvö ólíku
sjónarmið og fyrir utan venjulegan liðssafnað í prófkjöri bundinn einstökum
frambjóðendum og byggðarlögum þá var um málefnaleg átök í Sjálfstæðisflokknum.
Niðurstaðan var afgerandi stuðningur við útlendingatsefnu Ásmundar
Friðrikssonar og frjálslyndri afstöðu Unnar Brár var eftirminnilega hafnað.

Öfgasjónarmið ofan á

Þetta eru stóru tíðindin úr prófkjörinu. Ekki þau að konum hafi verið sérstaklega
hafnað, heldur hitt að Sjálfstæðisflokkurinn skipar sér í sveit með harðsvíruðum
hægri öfgaflokkum í Evrópu í málefnum flóttamanna. Íhaldsflokkur Merkels
í Þýskalandi er a.m.k. þingmannaleið frá þessum öfgum íslenska systurflokksins.
Um þetta eiga fjölmiðlarnir að fjalla.

Þeir eiga að skýra hinar mismunandi póltískar áherslur, strauma og stefnur. Að þessu leyti bregðast fjölmiðlarnir og stjórnarandstaðan gerir þau mistök að elta umræðuna í þeirri von að hafa einhvern pólitískan ávinning. Staðreyndin er sú að með þessari röngu umfjöllun er verið
að hlífa Sjálfstæðisflokknum við því að svara fyrir þá stefnu sem flokksmenn eru
að móta. Athyglin er dregin frá pólitík og stefnu að kynferði stjórnmálamannsins.

Fjölmiðlarnir eru að gera Sjálfstæðisflokknum mikinn greiða og hjálpa honum
að sópa útlendingafóbíu sinni undir teppið fram yfir kosningar. Fjölmiðlarnir
eiga að draga þetta fram og knýja fram umræðu um þessa stefnu. Það gera þeir
ekki. Þeir eru ekki að vinna verk sitt.

Kristinn H. Gunnarsson

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir