Rof milli skynjunar og veruleika hjá forsætisráðherra

Pistlar
Share

Sú óvenjulega staða birtist almenningi á þjóðhátíðardaginn að mómælendur
fjölmenntu á Austurvöll og gerðu hróp að forsætisráðherra
landsins. Það fór ekki á milli mála að því fer fjarri að 3000 mótmælendur
við Austurvöll séu einangraður hópur í þjóðfélaginu heldur dagljóst
að mótmælin eiga mikinn stuðning meðal landsmanna. Forsætisráðherra lét
eins og að honum væri alls endis ókunnugt um einhverja ólgu í þjóðfélaginu
og flutti einn eina „Ísland best í heimi“ ræðuna.

Það var afar óskynsamlegur málflutningur á þjóðhátíðardeginum. Þá á pólitískur
leiðtogi þjóðarinnar að leggja sig fram um að tala til allra í þjóðfélaginu
og haga orðum sínum þannig að sem flestir finni samhljóm á sínum að stæðum
við boðskapinn. Reyndur stjórnmálamaður eins og Steingrímur Hermannsson
hefði sýnt skilning á högum og aðstæðum hinna ýmsu þjóðfélagshópa og hvatt
til einingar með því að aðrir sem betur standa leggi af sínum efnum til þess
að að bæta úr. Núverandi forsætisráðherra er eins nálægt því að vera alger
andstæða hins lipra forvera síns og hefur tamið sér stóryrði og hnýfilyrði í
garð þeirra sem ekki deila hans sýn á menn og málefni.

Hrokagikkur valdsins

Vissulega er það rétt að draga fram það sem vel er gert og þjóðin getur glaðst
yfir og þegar horft er yfir lýðveldistímann er margt sem má nefna og minna
almenning á þær framfarir sem orðið hafa í íslensku þjóðfélagi. Þar nefndi
forsætisráðherrann réttilega ýmsa þætti sem vel standa í alþjóðlegum samanburði.
Um það er ekki gerður ágreiningur og ég hygg að mótmælendur
hafi svo sem ekki verið að andæfa því.

En Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og ríkisstjórn hans hefur á undanförnum mánuðum egnt fjölmarga þjóðfélagshópa
til reiði og hellt olíu svo á þann með hrokafullum ummælum.
Lengst gekk forsætisráðherrann þegar hann skýrði lítið fylgi við ríkisstjórnina
í viðtali á Eyjunni með þeim orðum „að einhverju leyti skýrist þetta
kannski á þessu rofi milli raunveruleika og skynjunar eða umfjöllunar“.

Það er yfirgengilegur hroki að slengja því framan í almenning að hann skynji
ekki raunveruleikann og stjórnist af skynjun eða umfjöllun. Ræða forsætisráðherrans
á Austurvelli fyrir fáum dögum er kannski skýrasta dæmið um
rof milli skynjunar og veruleika sem er til staðar. Það er forsætisráðherrann
sjálfur sem er í fullkominni afneitun á þeim veruleika sem almenningur er
að mótmæla og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á mikinn þátt í að hafa búið
til. Það er ekki almenningur sem þjáist af skynjunarrofinu heldur eru það
ráðamennirnir við ríkisstjórnarborðið í hátimbruðum valdastólum sínum
sem eru fluttir inn í sinn Babýlonsturn.

Veruleiki almennings

Það þarf mikið til þess að prúðasti almenningur í Evrópu grípi til hávaðasamra
mótmæla á sjálfan þjóðhátíðardaginn við athöfn sem annars er landsmönnum
kær helgistund. Þegar svo er komið er ekki allt í lagi og ráðamenn þjóðarinnar
komnir úr sambandi við fjölmenna hópa þjóðfélagsins.

Forystumenn beggja stjórnarflokka lofuðu því hátíðlega fyrir síðustu alþingiskosningar
að fela kjósendum að ákveða hvort halda eigi áfram viðræðum við
Evrópusambandið og freista þess að ná samningum, sem síðan yrði kosið um.
Mikill þungi er í kröfunni um aukin áhrif almennings á framgang mikilvægra
mál milli alþingiskosninga og svik ríkisstjórnarinnar sitja mjög í mörgum.
Fylgi við ríkisstjórnarflokkana hefur dalað og við Framsóknarflokkinn blasir
stórfellt hrun. Traust á forsætisráðherra er í sögulegri lægð þar sem tæplega
2/3 kjósenda bera lítið eða mjög lítið traust til hans.

Veruleikinn sem almenningur sér er að fjölmennar stéttir í heilbrigðiskerfinu
hafa gripið til verkfallsvopnsins og að ríkisstjórnin beitir meirihluta sínum á
Alþingi til þess að setja lög á eigin kjaradeilur við kvennastéttina hjúkrunarfræðinga
en semur við læknana um mun hærri launahækkun. Almenningur
finnur það á eigin skinni sem forstjóri Landsspítalans sagði nýlega að heilbrigðiskerfið
hefur fallið niður um gæðaflokk vegna verkfallanna og að nú
er framundan að starfsmenn fari til starfa í öðrum löndum.

Undir kraumar reiði öryrkja og eldri borgara yfir kjörum sínum og almenn
reiði vegna þjónkunar við fámennan hóp auðmanna með lækkun skatta og
fyrirhugaðri gjöf á verðmætum makrílstofni.
Það er margt sem skýrir mótmælin við Austurvöll og flest af því er ríkisstjórnin
meira og minna ábyrgt fyrir. Það er mikið rof á skynjun forsætisráðherra að
sjá það ekki.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir