Einar Oddur óttasleginn

Pistlar
Share

Einar Oddur Kristjánsson, alþm. gerir í Mbl.grein fyrir andstöðu sinni við áform Valgerðar Sverrisdóttur og síðar Jóns Sigurðssonar í embætti iðnaðarráðherra um endalok Byggðastofnunar. Ætlunin var að láta stofnuna hverfa inn í aðrar meira og minna óskyldar stofnanir, þar sem Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins var sýnu stærst.

Satt er að þessar tillögur, sem fram komu í frumvarpsformi í tvígang, voru markaðar óvild í garð stofnunarinnar og að öllu leyti óþarfar. Það er óvanalegt að ráðherra gangi svo fram sem var í þessu máli. Meðan ég starfaði innan Framsóknarflokksins lagðist ég gegn þessum frumvörpum og studdi þau ekki. Á lokadögum Alþingis gafst Framsóknarflokkurinn loksins upp og Byggðastofnun mun starfa áfram.

Í grein sinni leggur Einar Oddur lykkju á leið sína til þess að sverta mig vegna starfa minna sem formaður stjórnar Byggðastofnunar. Það lýsir því einu að hann óttast um stöðu sína í komandi Alþingiskosningum og grípur til þessa ráðs til þess að auka líkur á endurkjöri sínu. Mér er til efs að neikvæð kosningabarátta Einars Odds verði honum til framdráttar.

Byggðastofnun er nauðsynleg til þess að koma fjármagni til atvinnuuppbyggingar á þau svæði landsins sem viðskiptabankarnir vilja ekki sinna. Á 6 ára tímabili 1998 – 2004 var neikvæður hagvöxtur á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra svo dæmi séu nefnd.

Athyglisvert er þá að á árunum 2000 og 2001 var hagvöxtur á Vestfjörðum sá sami og á landsvísu. Það eru sömu ár og ég var stjórnarformaður. Þetta er einfaldlega dæmi um árangur pólitískrar stefnu sem rekin var gagnvart veikum svæðum landsins. Fjármagn er afl þess sem gera þarf. Það er ekki nóg að hafa stofnun heldur þarf að hafa pólitísk markmið og kjark til þess að hrinda þeim í framkvæmd.

Síðustu ár hefur hallað meira undan fæti en áður á nokkrum svæðum á landsbyggðinni, sýnu verst þó á Vestfjörðum. Það er Einari Oddi kunnugt um, en samt er enginn bilbugur á honum í stuðningi við þá sem helst bera ábyrgð á þróuninni.

pistillinn birtist á Mbl. 24. apríl 2007.

Athugasemdir