Verkalýðshreyfingin í 100 ár

Pistlar
Share

Þann 12. mars voru liðin rétt 100 ár frá því að fulltrúar frá sjö verkalýðsfélögum
komu saman og stofnuðu Alþýðusamband Íslands. Fyrsti
forseti sambandsins var kjörinn Ottó N. Þorláksson. Um haustið 1916
á fyrsta þingi hins nýstofnaða sambands tók við embættinu Vestfirðingurinn
og prentarinn Jón Baldvinsson frá Strandseljum. Jón Baldvinsson var jafnframt
formaður Alþýðuflokksins, stjórnmálaafls verkalýðshreyfingarinnar
og gegndi báðum embættunum frá 1916 til 1938.
Jón nam prentaraiðn í prentsmiðju Þjóðviljans á Ísafirði og var heimilsmaður í 8 ár hjá hjónunum Skúla og Theodóru Thoroddsen. Þar kviknaði áhugi Jóns Baldvinssonar á
þjóðmálunum og réttindamálum alþýðufólks. Það er að mörgu leyti vel við
hæfi að Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins
riti í blaðinu yfirlitsgrein um sögu hreyfingarinnar sem frændi hans Jón
Baldvinsson leiddi fyrstu tvo áratugina.

Mannréttindabarátta fátæks fólks

Frá upphafi snerist verkalýðsbaráttan um jöfn réttindi, að allur almenningur
og þar með vinnandi fólk hefði möguleika á að búa sér og sínum góð lífskjör.
Svo það mætti verða varð alþýða manna að brjóta af sér þá hlekki, andlega
og raunverulega sem þjóðfélagsskipanin hafði lengi fjötrað fólk í. Það varð
verkefni fyrstu kynslóðar verkalýðsbaráttunnar að berjast fyrir mannsæmandi
vinnutíma , aðbúnaði og launum. Það þurfti átök til þess að afnema langa
skugga vistarbands og vinnuhjúaskipan um kynslóðir og fá fólk til þess að
trúa því að jafn réttur væri bæði eðlileg skipan og nauðsynleg.

Það tók áratugi að ná fram almennum kosningarétti þar sem allir voru jafnir, karlar og
konur, ungir og aldnir. Það þurfti marga áfangasigra til þess að ná settu marki
og lengi vel var það lítill minnihluti sem fékk að kjósa um þjóðfélagsmálin.
Eignastéttin, landeigandaaðallinn, húsbændurnir voru runnir upp úr hugarfari
og þjóðskipulagi sem áleit þá öðrum ofar og að það væri ekki viðfangsefni
fátæks fólks, hvað þá kvenna, að hafa vit til þess að taka mikilvægar ákvarðanir
um þjóðarhag.

Þessi sjálfskipaði aðall lét ekkert af hendi baráttulaust. Sem dæmi um það er að um margra áratuga skeið var kosningarétturinn ekki bara bundin við fáa útvalda heldur þurftu þeir að greiða atkvæði á opnum fundi í heyranda hljóði. Það má nærri geta að húsbændurnir og valdhafarnir hafa ekki tekið því vel ef greitt var atkvæði á annan veg en valdinu þóknaðist.
Leynilegar kosningar voru hluti af samfelldri baráttu alþýðufólks fyrir því að vera fullgildir þátttakendur í íslensku þjóðfélagi.
Verkalýðsbaráttan snerist að vonum um alla þætti þjóðlífsins, kaup, kjör, aðbúnað, menntun,
heilbrigðisþjónustu, almannatryggingar, kosningarétt. Allt þetta þarf að koma til svo hver maður og hver kona geti verið sjálfstæður og fullburða þegn í þjóðfélaginu. Jón Baldvin Hannibalsson kallar verkalýðsbaráttuna réttilega baráttu fyrir mannréttindum.

Verkalýðshreyfingunni tókst að skapa hér á landi velferðarþjóðfélag byggt
á jöfnuði og hófsamri ágóðavon. Auðlindir landsins og sjávar, einkum þó
fiskistofnarnir og vatnsaflið, stóðu undir geysilegri verðmætasköpun og breytti
íslensku þjóðfélagi úr einu af því fátækasta í Evrópu í hóp þeirra auðugustu
á aðeins rúmum mannsaldri. Það tókst vegna þess að tiltölulega góð sátt var
í þjóðfélaginu um markmiðin og skiptingu arðsins. Íslenskt þjóðfélag gaf
öllum tækifæri til þess að nýta hæfileika sína og allir stóðu jafnir gagnvart
mikilvægum stoðum velferðarþjóðfélagsins.

Græðgin og auðsöfnunin

Síðustu þrjá áratugina hefur þróunin verið á annan veg í mikilvægum atriðum.
Í samræmi við alþjóðlega þróun kapitalismans hefur auðsöfnun og vaxandi
misrétti verið birtingarmynd breytinganna. Ný skýrsla bresku góðgerðarsamtakanna
Oxfam dregur fram að ríkasta 1% íbúa heimsins eigi meiri eignir en
hin 99% til samans. Sextíu og tveir ríkustu einstaklingarnir í heiminum eiga
meira en fátækari helmingur mannskyns á samanlagt. Vaxandi misskiptingu
auðs fylgir líka ójöfnuður á öðrum sviðum þjóðlífsins svo sem á jafnrétti
kynjanna. Á Íslandi hefur kvótakerfið skapað fámenna stétt auðmanna sem
verða í krafti þess auðs ráðandi í öðrum greinum atvinnulífsins og skirrast
ekki við að sýna vald sit. Græðgin og ófyrirleitnin er löngu orðin blæðandi
þjóðfélagsmein eins og birtist hvað best í fjármálafyrirtækjum landsins og
götóttu heilbrigðiskerfi. Framundan er hörð barátta launafólks og alþýðufólks
gegn gróðafíklunum og hugarfari þeirra svo setja megi íslenskt þjóðfélag
aftur á rétt spor. Jöfnuður er lykilatriðið í þeirri baráttu.

Kristinn H. Gunnarsson

pistillinn birtist sem leiðari í blaðinu Vestfirðir þann 17.3. 2016

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir