Frá valdaklíku til almennings

Molar
Share

Aðeins einu sinni hafa kjósendur fengið að kjósa um stjórnarskrána. Það var árið 1944 þegar kosið var um lýðveldisstofnunina. Alþingi samþykkti stjórnarskrána sem stjórnskipunarlög sem voru svo borin undir þjóðina í almennri atkvæðagreiðslu. Þá höfðu kjósendur aðeins þann eina kostur að samþykkja það sem Alþingi hafði ákveðið eða hafna því. Kjósendur gátu ekki sagt álit sitt á einstökum greinum eða köflum stjórnarskrárinnar.

Síðan hefur Alþingi átta sinnum gert breytingar á stjórnarskránni og í öll skiptin voru kjósendur sniðgengnir. Það er vegna þess að Alþingi ákvað að enginn gæti breytt stjórnarskránni nema Alþingi sjálft. Frá 1944 eða í 72 ár hafa kjósendur aðeins getað kosið þingmenn til setu á Alþingi. Þeir hafa svo tekið allar ákvarðanir um lög og milliríkjasamninga. Innihald einstakra breytinga á stjórnarskránni hafa því alla tíð verið ákveðin í samningum milli stjórnmálaflokkanna sem hafa átt sæti á Alþingi. Í raun hafa fáeinir forystumenn flokkannna möndlað með stjórnarskrána sín í milli. Kjósendum hefur aldrei verið hleypt að því borði og hafa aldrei fengið að segja sitt álit beint. Eini atkvæðaseðillinn sem kjósendur hafa fengið í hendur er í Alþingiskosningunum og á þeim seðli eru aðeins nöfn frambjóðenda og ekkert annað.

Alþingi án eftirlits

Eins og fyrirkomulagið hefur verið frá 1944 þá er Alþingi falið löggjafarvaldið og líka stjórnarskrárvaldið. Það er fullkomlega óeðlilegt að sá aðili sem á að setja lögin í landinu, innan þess ramma sem stjórnarskráin setur, skuli líka ráða rammanum. Það verður eðlilega freistandi að breyta leikreglunum fyrst forystumenn stjórnmálaflokkanna geta samið um það sín á milli. Það eru orðin almenn viðhorf nú til dags að aðskilja beri eftirlit og framkvæmd í stað þess að hafa það á sömu hendi. Þessar framfarir hafa ekki enn orðið þegar kemur að pólitíska valdinu.

Stjórnmálaflokkarnir hafa samið um stjórnarskrárbreytingar varðandi kjördæmaskipan og skiptingu þingsæta milli þeirra án þess að fá með beinum hætti samþykki kjósenda fyrir breytingunum. Þar hafa menn verið að skipa málum sem varða þá sjálfa . Þetta getur ekki gengið.

Þjóðin sjálf hefur samkvæmt stjórnarskránni valdið til þess að setja stjórnarskrá fyrir lýðveldið og það á enginn annar að geta gert á henni breytingar. Frá þjóðinni eiga að koma allar ákvarðanir um innihald stjórnarskránni og það er í eðli sínu valdarán að 63 kjörnir fulltrúar á Alþingi taki sér þetta vald. Það sem gerir enn brýnna að brjóta á bak aftur stjórnarskrárvald Alþingis er sú staðreynd að hjá forystumönnum stjórnmálaflokkannna liggur ekki aðeins þunginn af löggjafarvaldinu og stjórnarskrárvaldinu heldur einnig líka allt framkvæmdavaldið.

Vald spillir

Í höndum örfárra manna hefur um langa hríð verið samankomið mikið vald. Sérstaklega er það í höndum forystumanna þeirra flokka sem oft eru í ríkisstjórn. Það hefur einkennt íslensk stjórnmál að tiltölulega fámenn valdaklíka hefur ráðið mestu um skipan mála í þjóðfélaginu. Af þessum sökum hafa einstök hagsmunaöfl fengið miklu ráðið um sín mál vegna stuðnings manna í þessum fámenna hóp pólitískra valdamanna. Má þar nefna LÍÚ, viðskiptabankana og fleiri aðila. Afleiðingin birtist í óréttlátri úthlutun og annarri ráðstöfun verðmæta svo sem nýtingu náttúruauðlinda , einokunarkenndum leikreglum um viðskipti sem færa sérvöldum aðilum mikil verðmæti á lágu verði. Auðsöfnun fárra vegna kvótakerfisins í sjávarútvegi, Borgunar- og Símahneykslið og græðgin í fjármálaheiminum eru einkenni spillingar sem ætíð fylgir mikilli samþjöppun valds til fámennrar valdaklíku. Vald spillir. Það verður fyrr eða síðar að brjóta þetta fyrirkomulag upp og dreifa valdinu.

Stjórnarskrárbreytingin er forsendan

Það starf byrjar með breytingum á stjórnarskránni. Þar er leikreglunum í þjóðfélaginu breytt þannig að þær verði í þágu almennings en ekki útvalinna. Fyrsta skrefið er að taka af Alþingi valdið til þess að breyta stjórnarskránni og sjá til þess að framvegis verði henni aðeins breytt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Alþingi getur áfram tekið fyrir breytingar á stjórnarskránni og samþykkt þær fyrir sitt leyti en svo verður að vera að þær taki aðeins gildi að þær verði samþykktar í almennri atkvæðagreiðslu. Kjósandinn á að geta greitt atkvæði um hverja efnisgrein hverju sinni í stað þess að vera þvingaður til þess að samþykkja allt eða ekkert. Þá þurfa kjósendur að geta sett breytingar á dagskrá að eigin frumkvæði án tillits til Alþingis og fengið þær lagðar í dóm þjóðarinnar. Loks þurfa reglurnar um samþykki breytingatillagna að vera hlutlausar gagnvart því hver leggur þær til. Í því felst að óeðlilegt er að setja þröskulda sem eru fyrirfram vilhallir vilja Alþingis. Þegar fram líða stundir þyrftu reglur um breytingar á stjórnarskránni að þróast þannig að Alþingi kæmi þar ekki að, enda fer það ekki vel saman að sá aðili sem á að starfa samkvæmt tilteknum reglum geti haft áhrif á það hverjar þær reglur eru.

Önnur breyting sem þarf að verða er að aðskilja framkvæmdavald og löggjafarvald. Það felur í sér að ráðherrar verði ekki samtímis alþingismenn. Það dettur engum í hug að forystumaður stjórnmálaflokks sitji samtímis sem ráðherra og dómari vegna þess að dómsvald og framkvæmdavald má ekki blanda saman. Sama gildir um framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið, þótt viðgengist hafi að það væri á sömu heldi. Nú er í vændum loksins upphaf vegferðar til þess að greiða úr helstu orsökum spillingar á Íslandi með fyrirhuguðum breytingum á stjórnarskránni. Það er mikilvægt að vel til takist.

greinin birtist fyrst í Bæjarins besta á Ísafirði.

“ onclick=“return fbs_click()“ target=“_blank“ class=“fb_share_link“>Deila á Facebook

Athugasemdir