Sjávarútvegsráðherra fer með ósannindi

Pistlar
Share

Sjávarútvegsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, fór með alvarleg ósannindi í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins þann 18. nóvember síðastliðinn. Ráðherrann hélt því fram að markílveiðar hefðu skilað háum fjárhæðum í ríkissjóð sem hefðu farið hækkandi. Fyrst hefðu veiðarnar skilað 7 milljörðum kr í ríkissjóð en nú síðast 20 milljörðum króna.

Þarna er réttu máli hallað svo að það verður að leiðrétta rangfærsluna.

Árið 2008 var fyrsta árið sem makrílveiðar skiluðu einhverjum útflutningsverðmætum sem heitið getur eða 606 mkr. Árið eftir hækkuðu útflutningsverðmætin í 2.4 milljarða króna og árið 2010 urðu þau 8.470 mkr. Svo kom metárið, 2011, en þá urðu útflutningsverðmætin 24 milljarðar króna. Þau lækkuðu í 20 milljarða króna í fyrra, 2012. Ekki liggja fyrir tölur fyrir þetta ár, en ætla má , með nokkurri óvissu þó, að þau verði 17-18 milljarðar króna. Horfurnar eru mjög góðar fyrir næsta ár, einkum vegna þess að líklega verður leyft að veiða mun meira magn af makríl. Upplýsingar um veiðar og útflutningsverðmæti makríls er að finna á vef Hagstofu Íslands.

Það er mikill munur á útflutningsverðmætum og tekjum í ríkissjóð. Fráleitt er að markílveiðar hafi nú skilað 20 milljörðum í ríkissjóð þótt útflutningsverðmætið slagi upp í þá tölu. Vissulega mun ríkissjóður fá tekjur af umsvifunum, einkum þó í formi skatta af launatekjum og svo af óbeinum sköttum. En hlutur ríkisins af veltu í þjóðfélaginu er varla meira en 30% svo það er langur vegur frá fullyrðingum sjávarútvegsráðherrans, sem segir í raun fullum fetum að allar útflutningstekjurnar séu tekjur í ríkissjóð.

Það er mikið áhyggjuefni að einn helsti ráðamaður landsins skuli ekki gera greinarmun á útflutningstekjum og tekjum í ríkissjóð. Ummæli ráðherrans lýsa yfirgengilegri vanþekkingu á efnahagslífi eða þá meiriháttar ósvífni í málflutningi ef því er trúað að ráðherrann hafi vitað betur.

Það er hins vegar hægt að fá miklu meiri tekjur í ríkissjóð af makrílveiðum. Það er með því að láta útvegsmenn sjálfa verðleggja réttindin til makrílveiðanna með því að bjóða í kvótann á markaði. Þá mun koma í ljós hversu gífurlegur hagnaðurinn er af makrílveiðunum . En á því hafa handlangarar LÍÚ í ríkisstjórn engan áhuga. Yfirlýsingar ráðherrans, hygg ég, eru til þess ætlaðar að blekkja almenning og fá hann til þess að sætta sig við fyrirhugaða gjafakvótasetningu, þar sem ríkið fái nú þegar svo mikið í sinn hlut að ekki sé á það bætandi.

Rangfærslurar þarf þess vegna að reka ofan í sjávarútvegsráðherrann.

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir