Stóra kosningamálið að þessu sinni eru skuldir heimilanna. Krafan er að lækka skuldirnar með öllum ráðum niður í það sem þær voru fyrir hrun. Það eina sem skiptir máli er hver fær, en hver borgar er aukaatriði. Þetta er falsmynd og ber vott um sömu veruleikafyrringuna og var alls ráðandi árin fyrir bankahrunið. Það er lágtekjufólkið sem axlar þungann af byrðunum ásamt öldruðum, sjúkum og öryrkjum, sama hvernig reynt er að villa um fyrir landsmönnum.
Fyrst var því haldið fram að lífeyrissjóðirnir ættu að bera kostnaðinn, svo var það ríkissjóður og nú eru það „hrægammarnir“. Segjum sem svo, sem enginn veit hvort er hægt, að ríkissjóði takist að ná til sín 250-400 milljörðum króna úr þrotabúum föllnu bankanna ,þá fara peningarnir einmitt þangað, í ríkissjóð. Þá verður spurningin, hvað á að gera við þá?
Ríkissjóður greiðir í ár um 90 milljarða króna í vexti vegna eigin skulda og mun gera það næsta áratuginn að öllu óbreyttu. Þetta er nærri tvöföld sú upphæð sem fer til almannatrygginga. Ef ríkissjóður myndi nota happdrættisvinninginn til þess að lækka skuldirnar myndu vaxtagreiðslurnar lækka og þá væri kannski hægt að bæta kjör verst stöddu þjóðfélagshópanna.
Stefán Ólafsson, prófessor segir að heilbrigðiskerfið sé í alvarlegri hættu vegna mikils og langvarandi niðurskurðar. Það þarf greinilega að setja háar fjárhæðir þangað til þess að afstýra stórkostlegum vandræðum. Stefán veit líka, sem stjórnarformaður Tryggingarstofnunar ríkisins, að aldraðir og öryrkjar hafa borið þyngstu byrðarnar síðan hrunið var. Kjör þeirra hafa með lögum verið skert óheyrilega mikið. Það ætti að vera fyrsta verkefni ríkisins þegar einhverjar viðbótar tekjur koma í ríkissjóð að rétta hlut þessa hóps. Það ætti ekki að þurfa að minna á hlutskipti sjúkra eftir hrun. Væri ekki rétt að verja einhverju fé til þess að létta af þeim kostnaði,sem hefur farið vaxandi ef eitthvað er, vekna veikindanna ?
Svo eru það skuldugu heimilin. Opinberar skýrslur sýna að lágtekjufólkið er í mesta greiðsluvandanum. Tveir þriðju þeirra sem er í greiðsluvanda eru tekjulág heimili.Hins vegar er ríflega helmingur þeirra sem eru í skuldavanda í hópi tekjuhárra heimila. Það er hátekjufólkið sem bæði á mest og skuldar mest. Sömu skýrslur leiða líka fram að 85% af alvarlegum vanda heimilanna var orðinn til fyrir hrun bankanna, það er fyrir svonefndan forsendubrest.
Vinir heimilanna, í Framsóknarflokknum og ýmsum stjórnmálaflokkum, einkum nýjum, vilja lækkun skulda eftir almennum aðferðum, ýmist 20% lækkun eða fasta krónutölu pr. heimili. Ef það yrði gert myndu stærstur hluti fjárhæðarinnar, sem nemur hundruðum milljarða króna, fara til tekjuhás eignafólks. Til 20% heimilanna, sem eiga meira en 20 mkr í eigið fé , myndu fara 41 milljarður króna ef farið yrði 20% niðurfærsluleið og 70 milljarða kr ef miðað yrði við 4 mkr pr íbúð. Er þetta sanngjörn dreifing takmarkaðra fjármuna? Þeir sem þetta vilja eru að færa frá fátækum til ríkra, frá þurfandi til velmegandi.
Svo má minna á það að Framsóknarflokkurinn ásamt Sjálfstæðisflokknum vija fyrst taka frá fé til þess að lækka veiðigjaldið af útgerðinni áður en gullinu verður dreift að öðru leyti yfir auðugri hluta þjóðarinnar.
Spurningin, sem þjóðfélagið þarf að glíma við á næstunni, er hvernig á að viðhalda nauðsynlegri einingu í litlu samfélagi sem er undirlagt af persónulegum sérhagsmunum og hefur snúið á hvolf hefðbundum gildum um samhjálp og samstöðu.
Þeir sem munu að lokum bera byrðarnar eru líka fólk, sem eiga sér líka heimili. Eru þau heimili eitthvað minna virði en heimili skuldsettra og tekjuhárra?
" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook
Athugasemdir