OECD bendir á alvarlega galla kvótakerfisins

Pistlar
Share

Í nýjustu skýrslu OECD um Ísland er, þegar grannt er skoðað, mjög athyglisverður kafli um kvótakerfið. Sérfræðingar stofnunarinnar segja að ríkið geti aukið tekjur sínar um milljarðatugi króna árlega með hærra veiðigjaldi og þeir, vitandi eða óafvitandi, benda á alvarlega galla á kerfinu sem valda því að afrakstur atvinnugreinarinnar er í dag miklu minni en hann gæti verið.

Álit sérfræðinganna nær aðeins til útgerðar og þeir gefa sér greinilega að aflinn sé seldur á hverjum tíma á hæsta fáanlega verði. En líklega er meirihluti aflans seldur beint til vinnslu til annars lögaðila á verði sem er umtalsvert lægra en markaðsverð. Afraksturinn er með þessu móti færður milli atvinnugreina í þeim tilgangi að fela raunverulegan hagnað af veiðunum og hlunnfara ríkið og sjómenn. Þá veldur þetta undirverð á fiski alvarlegum mun á samkeppnisstöðu milli fyrirtækja í fiskvinnslu eftir aðgangi þeirra að kvóta. Eigi að ná fullum ávinningi af kvótakerfinu verður að tryggja að fiskurinn sé verðlagður á markaði. Mér sýnist að eina leiðin til þess sé að aðskilja veiðar og vinnslu sé að selja allan afla á markaði. Með því vinnst að öll fiskvinnslufyrirtæki sitja við sama borð varðandi þeirra stærsta útgjaldalið.

OECD leggur til að ríkið hækki veiðigjaldið umtalsvert frá því sem nú er og taki stærri hlut af árlegum hagnaði til sín, sem talinn er vera á bilinu 14-34 milljarðar króna. Í dag fær ríkið um 3 milljarða króna. Að auki þá vísar stofnunin til álits íslenskra hagfræðinga sem telja unnt að stækka fiskistofnanna og þrefalda þennan hagnað frá hærri tölunni upp í 94 milljarða króna (667 milljónir dollara). Sérfræðingar OECD telja að ríkið eigi að taka allan þennan viðbótarhagnað til sín. Þetta eru hvorki meira né minna en 60 milljarðar króna á hverju ári. Þetta álit OECD er augljóslega ekki í samræmi við vilja LÍÚ eða stjórnmálaflokka sem engu vilja breyta og í raun er stofnunin að snupra þessa aðila fyrir sérhagsmunagæsluna.

Athyglisverðust er afstaða sérfræðinga OECD til framsalsins. Þeir segja að framsalið með aflahlutdeildarkerfinu sé meginstoð kerfisins. Það leiði til þess annars vegar að hagsmunir útgerðarmannsins liggi í ábyrgum veiðum og varðveislu fiskistofnana og hins vegar muni betri útgerðarmenn kaupa þá lakari út og fyrir vikið aukist arðsemin í greininni. Greinilegt er í skýrslunni að OECD sérfræðingarnir eru að tala um varanlegt framsal. Þetta er í samræmi við þau rök sem höfð voru uppi fyrir áratug í síðustu endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins. Sagt var að framsalið leiddi til þess að kvótinn myndi safnast til þeirra sem væru bestir í því að veiða og hinir hætta.

En staðreyndin er hins vegar sú að þetta hefur ekki gerst. Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá maí 2010 sem heitir skilvirkni markaðar fyrir aflaheimildir dregur fram að á undanförnum árum hefur dregið úr viðskiptum með aflahlutdeildir ( varanlega kvóta) en viðskipti með aflamarkið ( leigukvótann) hafa stórlega vaxið. Frá fiskveiðiárinu 2002/3 til og með 2008/9 eykst framsal á aflamarki um 15% af heildinni og var um 42% allra útgefinna heimilda seinna árið.

Þetta þýðir að lakari útgerðarmennirnir eru ekki að fara út úr greininni og aðrir betri að taka við. Þvert á móti eru þeir áfram í útgerð en veiða ekki. Það kemur svo í veg fyrir að þeir betri geti haslað sér völl í greininni og þeir eru dæmdir til þess að verða leiguliðar. Upp er komið kerfi sem kemur beinlínis í veg fyrir framþróun kerfisins þjóðinni til heilla en ávinningurinn af betri útgerðarmönnunum rennur allur til útvalinna kvótaeigenda. Þetta er í algerri andstöðu við sjónarmið OECD. Reglurnar um framsal árlegs kvóta eru meinsemdin sem verður að taka á ef litið er til skýrslu OECD.

Hvernig framsalsreglurnar eigi að verða segir stofnunin ekkert um en það virðist augljóst að framsal leigukvóta er of rúmt. Augljóst er að setja verður löggjöf um viðskipti með aflaheimildir og að grundvalla þau viðskipti á markaðsforsendum. Sjónarmiðum sérfræðinga OECD verður aðeins mætt með því að hætta árlegri úthlutun ríkisins til valinna handhafa á niðursettu verði og taka upp sölu heimildanna á markaði þar sem útgerðarmennirnir verðleggja þær sjálfir og greiða ríkinu það sem þeir treysta sér til.

Það stendur fátt eftir af málflutningi þeirra sem vilja óbreytt kerfi þegar búið er að fara í gegnum rökstuðning OECD fyrir ágæti framseljanlegs aflamarkskerfis. Kjarni málsins er sá að núverandi úthlutunarkerfi kvótans er ein samfelld sértæk „byggðaaðgerð“ fyrir fáa útvalda. Almennu leikreglurnar og athafnafrelsið er alltaf best fyrir þjóðina og það er líka best fyrir sjávarbyggðirnar sem liggja við fiskimiðin.

Athugasemdir