Lagt er til í breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar Alþingis að framlög til stjórnmálaflokkanna verði 10% lægri á næsta ári en þau voru á þessu ári. Framlögin 2009 eru 371,5 mkr. og lækka 2010 í 334,3 mkr. Það er vonum seinna að forystumenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi urðu sammála um að snerta framlögin til flokkanna. Á fyrstu dögum minnihlutastjórnarinnar lagði ég til í sérstöku frumvarpi á Alþingi,að fjárveitingar til flokkanna yrðu lækkuð um 10% fyrir yfirstandandi ár, 2009.
Það var í beinu framhaldi af nýsettum fjárlögum fyrir 2009, þar sem Alþingi skar niður meðal annars eigin útgjöld um 10% . Af einhverjum ástæðum var þá ekki hróflað við framlögum til stjórnmálaflokkanna. Af einhverjum ástæðum fékkst frumvarpið ekki tekið fyrir á Alþingi. Það hvorki komst á dagskrá þingfunda né var tekið til umræðu, hvað þá afgreiðslu. Það er loksins nú lagt til að stjórnmálaflokkarnir taki á sig þennan niðurskurð. Betra er seint en aldrei.
Svo er það spurningin hvenær flokkarnir taka á sig niðurskurðinn sem verður á útgjöldum ríkisins á árinu 2010. En þeir eru greinilega stikkfrí í a.m.k. eitt ár frá aðhaldi sem öðrum er ætlað að bera.
Spyrja má að lokum hvort formenn stjórnmálaflokkanna telja sig áfram undanþegna niðurskurðinum og hafna yfir aðra alþingismenn. Fyrr á árinu var afnumin heimild sem landsbyggðaþingmenn höfðu nýlega fengið til þess að ráða aðstoðarmann í þriðjungsstöðu. En enn stendur heimild sem formenn stjórnmálaflokka, sem ekki eru ráðherra, fengu á sama tíma til þess að ráð aðstoðarmann í fullt starf. Eru aðstoðarmenn flokksformanna mikilvægir en aðstoðarmenn alþingismanna óþarfir?
Þegar eftirlaunalögum var breytt fyrir sex árum, svo sem frægt er, var kaup flokksformanna hækkað og er 150% af þingfararkaupi. Þessi kauphækkun stendur enn, þótt öllu öðru í breytingunum umdeildu hafi verið kollvarpað og meira til.
Ekkert hefur sést til breytingartillagna um þessi tvö atriði í starfskjörum formanna stjórnmálaflokkanna sem sitja á Alþingi en eru ekki ráðherrar. Líklega eru formennirnir sammála um það á fundum sínum að hrófla ekki við þessum kjörum sínum. Eiga formennirnir að vera áfram stikkfrí ? Hvað segja Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson? Vilja þeir vera á sérkjörum á Alþingi?
Athugasemdir