Nú liggur fyrir bráðabirgðaniðurstaða eftirlitsstofnunar EFTA, ESA , um neyðarlögin sem sett voru á Alþingi í byrjun október á síðasta ári. Stofnunin telur að lögin brjóti ekki í bága við ákvæði EES samningsins og að íslensk stjórnvöld hafi haft rétt til þess að verja bankakefið og almannaöryggi. Sérlega mikilvægt er að ESA fellst á að heimilt hafi verið að gera bankainnstæður að forgangskröfum í því skyni að koma í veg fyrir að eigendurnir töpuðu peningum. Rökstuðningur ESA er athyglisverður og á þennan veg: bankakerfi er ein af grundvallastoðum ríkja, bæði m.t.t. til hagkerfis og almannaöryggis, án innstæðna getur það ekki starfað, og innstæður verða ekki fyrir hendi ef þær eru ekki öruggar.
Þessi niðurstaða er um 600 milljarða króna virði fyrir íslenska skattgreiðendur. Ef neyðarlögin standast ekki verða innstæðurnar aðeins almennar kröfur og upp í þær fást greiddar kannski 100 milljarðar króna í stað þess að eignir gamla Landsbankans greiða nærri alla 730 milljarðana. Það er ekkert smáfjárhæð, um það bil fjárlög íslenska ríkisins í eitt og hálft ár.
En bráðabirgðaálitið segir í raun meira. Þar kemur fram að grundvöllur EES samningsins og ESB samstarfsins er að reglur sem um samstarfið eiga að gilda séu óháð þjóðerni. Neyðarlögin gera ekki uppá milli aðila eftir þjóðerni og eru óháð búsetu. Þess vegna kemst ESA að þeirri niðurstöðu til bráðabirgða að þau standist ákvæði EES samningsins.
Í þessu felst að fyrirsjáanlegt er hver yrði afstaða ESA í Icesave deilunni ef eða þegar hún fær kvörtun eða kæru um það mál. Íslensk stjórnvöld hafa neitað að ábyrgjast og borga innstæður í Landsbankanum í útibúum bankans erlendis. Þau hafa á sama tíma lýst því yfir að þau ábyrgist allar innstæður í innlendum útibúum Landsbankans. Þessi yfirlýsing var reyndar ítrekuð með sérstakri fréttatilkynningu efnahags- og viðskiptaráðuneytisins í morgun. Þessi afstaða mismunar eftir þjóðerni og brýtur gegn ákvæðum EES samningsins. En samningurinn hefur lagagildi hér á landi og meira að segja gilda þau lög umfram önnur lög.
Fyrirsjáanlegt er að ESA telji að sama ábyrgð verði að vera á öllum innstæðum í Landsbankanum óháð þjóðerni eigandans og óháð því í hvaða útibúi bankans peningarnir voru vistaðir Það er líka fyrir sjáanlegt að íslenskir dómstólar komist að þeirri sömu niðurstöðu og sama gildir um EFTA – og Evrópudómstólana. Í Icesave samkomulaginu greiðir íslenska ríkið aðeins lágmarkstrygginguna í erlendu útibúunum. Það munar um 520 milljörðum króna á því og öllum innstæðunum. Breska og hollenska ríkið munu ekki sækja þann mismun fyrir dómstólum ef Icesave samkomulagið verður staðfest.
Það má því segja að bráðabirgðaálit ESA jafngildi um 1100 milljörðum króna fyrir Íslendinga.
Það er ekki skylda að ábyrgjast innstæður í bönkum nema að tiltekinni lágmarksfjárhæð. En úr því að stjórnvöld ákváðu að ábyrgjast allar innstæður þá verður það sama að gilda fyrir alla innstæðueigendur. Það er kjarni málsins. En kjarninn í afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar er að viðurkenna þetta ekki . Hún hefur sótt um að fá að spila í Evrópusambandinu en vill spila eftir öðrum reglum en þeir sem eru fyrir.
Athugasemdir