Stiklað framhjá staðreyndum

Pistlar
Share

Vestfirðingar glöddust yfir því í síðustu viku að lokið var við að sprengja í gegnum fjöllin milli Hnífsdals og Bolungavíkur og jarðgöngin langþráðu því orðin að veruleika. Kannski er óhætt að segja að landsmenn allir hafi glaðst. Könnun leiddi eitt sinn í ljós að ríflega 90% landsmanna studdu þá ákvörðun að gera göngin. Ég man ekki eftir því að nokkur önnur jarðgöng hafi notið jafn eindregins stuðnings þjóðarinnar hvorki fyrr né síðar.

Af þessu tilefni hefur fyrrverandi samgönguráðherra farið yfir aðdraganda málsins í aðsendri grein á bb.is. Þar stiklar hann yfir nokkrar staðreyndir. Einsýnt er eftir þann lestur að er ekkert undan dregið sem hann varðar og engu þarf þar við að bæta. En aðrir komu að því fá jarðgöngin samþykkt í ríkisstjórn og á Alþingi og framhjá þeirra hlut er stiklað. Enginn vex þótt öðrum gleymi og enginn minnkar þótt aðrir njóti sannmælis.

Ríkisstjórnin samþykkti í lok september 2005 tillögu samgönguráðherra að leggja til við Alþingi að gera skyldi jarðgöng. En málið átti nokkurn aðdraganda. Áður, líklega í ágústmánuði ,tók landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson málið upp í ríkisstjórn og naut þar til stuðnings Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra. Reifaði Guðni þau sjónarmið að vegna vaxandi grjóthruns yrði ekki komist hjá því að gera jarðgöng milli byggðarlaganna. Þá varð niðurstaða ríkisstjórnar að fela samgönguráðherra að undirbúa tillögu, enda málið á hans forræði.

Frumkvæði að stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar kom frá formanni og varaformanni Framsóknarflokksins og rétt að halda því til haga. Skömmu áður hafði ég rætt málið ýtarlega við Guðna Ágústsson og gert honum grein fyrir því hversu alvarleg hættan var þá orðin fyrir alla umferð um Óshlíðina og beðið hann um að beita sér fyrir jarðgöngum. Þá efa ég ekki að fleiri hafi beitt sér fyrir úbótum þessa mánuði þótt ég viti ekki um það og eflaust hefur það haft áhrif líka. En ég tel að atbeini Halldórs og Guðna hafi haft úrslitaáhrif.Ef þeir hefðu ekki beitt sér og tekið frumkvæði þarna um haustið væri alveg óvíst hvar málið væri statt nú fjórum árum síðar.

Það er staðreynd sem vert er að rifja upp að fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2005 – 2008 var samþykkt á Alþingi í maímánuði 2005, sama vor og ríkisstjórnin samþykkir jarðgöngin um haustið. Það er áætlun sem Sturla Böðvarsson lagði fram sem samgönguráðherra. Í henni var aðeins gert ráð fyrir Fáskrúðsfjarðargöngum og Héðinsfjarðargöngum. Ekki var minnst á jarðgöng til Bolungavíkur hvorki í ræðu ráðherra né í sangönguáætluninni.

Ég bar upp sérstaka fyrirspurn til ráðherra um jarðgöngin til Bolungarvíkur sem hann svaraði 4. maí, nokkrum dögum áður en samgönguáætlunin var afgreidd á Alþingi. Minnti ég á snjóflóðin og grjóthrunið á veginum og nýleg atvik, þar sem vegfarendur voru í verulegri hættu. Alvarlegast var þegar vinnuvélaeigandi ,sem var að ryðja grjóti af veginum, fékk á sig grjótskriðu.

Í svar ráðherra kom fram að þegar væri litið til framtíðar væri ekki ólíklegt að jarðgöng myndu leysa Óshlíðarveg af hólmi, en sagði jafnframt: „Ég legg ríka áherslu á að áfram verði unnið að endurbótum á Óshlíðarvegi og tel eðlilegt að jarðgangakosturinn verði metinn að nýju við endurskoðun samgönguáætlunar til tólf ára, en eins og fyrr hefur komið fram hér mun sú vinna hefjast strax á næsta ári“.

Þá sagði ráðherrann ennfremur: „en það er auðvitað ekki hægt að víkja því algjörlega til hliðar að búið er að fjárfesta þarna mjög mikið í vegskálunum sem að ýmsu leyti hafa nýst prýðilega þó að þeir leysi ekki þörfina fyrir betri og öruggari samgöngur um Óshlíðina. Það er alveg ljóst og þess vegna kom fram í svari mínu að nú þarf að leggja á ráðin um næsta áfanga endurbóta. Bent var á þá hugmynd m.a. að þarna yrðu gerð stutt jarðgöng til að leysa það mál og þar með að nýta þá feiknarlega dýru fjárfestingu sem vegskálarnir eru“.

Svörin eru alveg skýr og jarðgöng voru þá ekki á döfinni næstu árin, heldur var boðuð athugun málsins við endurskoðun 12 ára samgönguáætlunar. Það varð alger stefnubreyting hjá ríkisstjórninni í september 2005 og ég hef rakið hverjir höfðu þar framkvæðið. Óþarft er að stikla framhjá staðreyndum, en fyrrverandi samgönguráðherra er þakkað fyrir hans þátt.

Athugasemdir