Ríkið beitir ýmsum leiðum til þess að jafna lífskjörin meðal þegna landsins. Ýmist með sköttum eða greiðslum til einstaklinga til þess að auka ráðstöfunartekjur sumra og minnka þær hjá öðrum. Því hefur verið hreyft að lækka eigi skatta á landssvæðum þar sem tekjur eru lágar og hækka þannig ráðstöfunartekjur fólks sem þar býr. Markmiðið er styrkja búsetu fólksins með því að auka jöfnuð í þjóðfélaginu.
Önnur leið að sama marki er að hafa hærri persónuafslátt eftir búsetu en sömu skattaprósentu. Eðlilegt er að spurt sé hvort þessi úrræði standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Svarið er skýrt og ótvírætt já, það er hægt að hafa breytilega skatta eftir lögheimili og það sem meira er , það hefur lengi verið við líði.
Útsvar er breytilegt eftir sveitarfélögum frá 11,24% af tekjum upp í 13,03% og áður fyrr var lágmarksútsvar 3%. Sömu tekjur eru skattlagðar mismunandi eftir búsetu greiðandans og engu skiptir hvar teknanna er aflað. Þá eru fasteignaskattar líka mismunandi eftir sveitarfélögum og geta verið frá 0% upp í 0,625% af álagningarstofni.
Sambærilegar eignir eru skattlagðar mismunandi eftir staðsetningu eignar. Þriðja dæmið um breytilega skattheimtu er afleiðing sjómannaafsláttarins. Hann þýðir í raun mismunandi persónuafslátt eftir atvinnu, þeir sem eru á sjó geta fengið allt að 80% hærri persónuafslátt en hinir sem vinna við annað. Þetta þýðir að mismunandi tekjuskattur er í gildi eftir atvinnu. Mismunandi tekjuskattsprósenta eða mismunandi persónuafsláttur eftir lögheimili framteljanda samræmist því sem þegar er til staðar í skattalögum.
Mörg önnur dæmi eru til í lögum um það að ríkið beitir skattalögum með mismunandi hætti til þess að ívilna tilteknum hópi þjóðfélagsþegna. Tekjuskattur af fjármagni er miklu lægri en af atvinnutekjum, foreldrar fá barnabætur, íbúðareigendur fá vaxtabætur og leigjendur fá húsnæðisbætur svo helstu dæmin séu nefnd. Niðurstaðan er sú að skattkerfinu er nú þegar beitt til þess að mismuna eftir uppruna tekna, lögheimili, íbúðareign,fjölskylduaðstæðum, aldri og atvinnu.
Þessum úrræðum er beitt vegna þess að þau virka fljótt og hafa mikil áhrif. Það mun líka verða reyndin ef skattaleiðin verður farin markvisst til þess að styrkja búsetu á landsbyggðinni. Það er ekki völ á annarri betri og skjótvirkari leið. Þess vegna á að hana.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. júlí.
Athugasemdir