Vegna ákvörðunar félagsmálaráðherra og ríkisstjórnar um lækkun hámarkslána Íbúðalánasjóðs úr 90% í 80% með þeim rökstuðningi að slá þurfi á verðbólgu hef ég tekið saman meðfylgjandi upplýsingar í þeim tilgangi að stuðla að upplýstri umræðu um málið.
Það er mitt mat að breytingin komi fyrst og fremst niður á fasteignaviðskiptum á landsbyggðinni og kaupum á frekar ódýrum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu, en hafi engin áhrif á útlánagetu viðskiptabankanna sem munu auðvitað taka að sér að veita þau lán sem Íbúðalánasjóður hættir að veita með reglugerðarbreytingunni. Þar með verði engin áhrif til þess að slá á þensluna. En Íbúðalánsjóður verður veikari eftir.
Lækkun hámarkslána Íbúðalánasjóðs úr 90% í 80% af kaupverði bitnar nær eingöngu á landsbyggðinni. Samkvæmt upplýsingum sem finna má á heimasíðu Íbúðalánasjóðs eru 90% lán langt innan við 10% af heildarútlánum sjóðsins og af þeim lánum eru um 90% tengd landsbyggðinni.
Lánafjöldi sjóðsins er vel yfir 105 þúsund. Fjöldi hámarkslána að undanförnu er þannig sundurliðað eftir höfuðborgarsvæði og landsbyggðinni. Hámarkalán eru 90%, nema 80% frá júní 2006 til mars 2007 :
2005 2006 2007 (jan-apr.)
Höfuðborgarsvæðið 111 78 40
Landsbyggðin 1883 708 ?
Af þessu er augljóst að lækkun lánshlutfallsins í 80% hefur hverfandi áhrif á höfuðborgarsvæðinu en umtalsverð á landsbyggðinni. Verðhækkun fasteigna að undanförnu er hins vegar á höfuðborgarsvæðinu miðað við upplýsingar á vef Fasteignamats ríkisins.
Spurningin er hvernig þessi breyting getur stuðlað að lækkun verðbólgu, eins og er yfirlýstur til gangur félagsmálaráðherra?
Aðrar gagnlegar upplýsingar um Íbúðalánasjóð og útlán bankanna:
Lánshlutfall nýrra lána Íbúðalánasjóðs er 2007 er um 60%.
Meðallánshlutfall allra lána sjóðsins er um 55%.
Meðaltalsveðhlutfall allra lána sjóðsins er innan við 40% af brunabótamati.
Útlán bankanna til heimilanna hafa aukist um 500 milljarða króna síðustu 3 ár, auk gjaldeyrislána sem eru að nálgast 100 milljarða króna.
Útlán Íbúðalánasjóðs hafa dregist saman um 17% eða um 70 milljarða króna síðustu 3 ár.
Niðurstaða: Þenslan er vegna útlána bankakerfisins til heimilanna. Lækkun hámarkslána ÍLS dregur ekki úr lánveitingum bankanna heldur miklu fremur bætir svigrúm þeirra til aukinna lána. Aðgerð til þess að draga úr þenslu verður að minnka getu bankanna til útlána. Eðlilegast er að auka bindiskyldu þeirra gagnvart Seðlabanka á nýjan leik, en færa má rök fyrir því að upphaf útlánasprengingar bankanna megi rekja til lækkunar bindiskyldunnar 2003/2004.
Athugasemdir