Græðgin gengur af göflunum

Pistlar
Share

Útgerðarmafían hóf árið með stórsókn gegn almenningi. Framkvæmdastjóri samtaka þeirra fer hamförum yfir veiðigjaldinu og segir það vera skattheimtu á sterum. Ætla mætti að verið væri að ganga a milli bols og höfuðs í efnahagslegum skilningi á öllum helstu útgerðarfélögum landsins, slíkur er barlómurinn. Segja mætti eins og þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði eitt sinn fyrir löngu í nauðvörn á framboðsfundi út af öðru máli, sárt bítur soltin lús. Þeir sem eru illa haldnir af græðginni fá aldrei nóg og eru stöðugt langsoltnir.

31 milljarður króna í hreinan hagnað

En það þarf ekki að skoða lengi opinber gögn um afkomuna í sjávarútvegi til þess að sjá í gegnum moldviðrið sem þeytt er upp. Nýjustu gögn eru fyrir árið 2015. Það ár er hreinn hagnaður af fiskveiðum hvorki meira né minna en 31,1 milljarður króna. Þá er búið að draga alla mögulega og ómögulega kostnaðarliði frá tekjum útgerðarinnar. Meðal annars þá 3,3 milljarða króna sem útgerðin greiddi það ár til ríkisins fyrir einkaréttinn til þess nýta fiskimiðin við landið. Þá er búið að leyfa grátkerlingunum að koma hluta af hagnaðinum af fiskveiðum undan veiðigjaldi yfir til vinnslunnar með því að skyldir aðilar kaupa fiskinn af sjálfum sér á verði sem er undir markaðsverði. Það er í öðrum atvinnugreinum litið á sem svik og pretti en þykir fínt í sjávarútvegi. Þá er líka búið að leyfa þeim að endurvikta fiskinn og lækka viktina sem lögboðin hafnarvog gefur upp. Í raun liggur fyrir að hagnaðurinn af fiskveiðunum er mun meiri en þær tölur segja sem notaðar eru til þess að ákvarða hlut almennings í arðinum.
Í lögunum um veiðigjald, sem LÍÚ hafði alla sína putta í þegar þau voru sett, segir skýrt að greiða skuli 33% af hreinum hagnaði í veiðigjald. Þriðjungurinn af 31 milljarði króna er einmitt um 11 milljarðar króna og það veldur flogaköstunum. Staðreyndin er sú að afkoma útgerðarinnar er ekki að versna heldur þvert á móti að batna. Veiðigjaldið tvöfaldast í krónutölu frá fyrra ári einmitt vegna þess að hagnaðurinn hefur tvöfaldast. Það sem útgerðin heldur eftir þegar tekið hefur verið frá fyrir veiðigjaldinu hækkar úr 10 milljörðum króna upp í 20 milljarða króna á milli ára. Þetta heitir á máli LÍÚ skattheimta á sterum. Samt hefur ekkert breyst frá því í fyrra, sömu lög og sama hlutfall af hreinum hagnaði tekið í veiðigjald. Einkahlutafélag helsta eiganda stærsta útgerðarfélags landsins hagnaðist um 6 milljarða króna á árinu 2016 og átti þá í lok ársins 35 milljarða króna í eigið fé.

Afslættir og ívilnanir

Eitt af því sem skýrir ofsann í málflutningi LÍÚ um þessar mundir er að nú fyrst rúmum 5 árum eftir að lögum um veiðigjald voru sett ber að greiða gjaldið að fullu. Hingað til hefur verið veittur afsláttur upp á milljarða króna til þess að niðurgreiða úr ríkissjóði kaup útgerðarinnar á aflaheimildum. Eitt árið voru þessir afslættir 3 milljarðar króna. Nú er þessu afslætti lokið. Loksins er komið að því að útgerðin borgi það sem Alþingi setti upp árið 2012. Þó fer hin auma útgerð ekki alveg í jólaköttinn. Áfram verður við lýði sérstakur afsláttur upp á 15 – 20% af fyrstu 9 milljón kr. af álögðu veiðigjaldi. Þrátt fyrir það stendur upp úr vinstri grænum stjórnmálamönnum að veita þurfi frekari afslætti til minni og meðalstórra útgerðarfyrirtækja. Það verður ekki af þeim skafið að þeir eru aumingjagóðir.

Gjafakvótinn

Alvarlegast er þó að árlega skuli útgerðin fá sjálfkrafa úthlutað veiðiréttinum gegn gjaldi langt undir markaðsvirði. Um þessar mundir er greitt á markaði um 179 kr fyrir heimildina til að veiða kg af þorski. Ríkið afhendir heimildina fyrir 23 krónur. Árið 2015 var staðan þannig að útgerðarmenn fengu veiðiréttinn fyrir 13 kr en markaðsverðið var þá 233 krónur. Hvað á svona háttalag að þýða? Hið sorglega er að útgerðinni þykir eðlilegt og sjálfsagt að fá úthlutað veiðirétti fyrir 23 kr/kg og framleigja svo réttindin fyrir 156 kr/kg og sleppa að auki við að borga ríkinu 23 kr/kg. Útgerðin fær þarna 156 kr fyrir hvert kg af þorski í tekjur algera sér að kostnaðarlausu. Þetta er sannarlega gjafakvóti.

Fáeinir einstaklingar á Íslandi eru að borga lítið fyrir verðmæti sem þeirra eigin markaður metur á 30 – 40 milljarða króna á hverju ári. Mismuninum stinga þeir í eigin vasa. Það er búið að afbaka svo siðferðileg viðmið að þetta er viðurkennt athugasemdalaust. Græðgin er óstjórnleg og óseðjandi og er gengin af göflunum. Nú er mál að velta borðum víxlaranna.

Kristinn H. Gunnarsson

Athugasemdir