Veik staða sjómanna

Pistlar
Share

Sjómannaverkfallið hafði staðið nærri 10 vikur þegar því loksins lauk á sunnudaginn. Kjaradeildan milli sjómanna og útgerðarmanna er ein sú harðasta um langt skeið og sú langvinnasta í sögu embættis Ríkissáttasemjara. Verkfall er átakastig í stéttadeilum. Þar takast á launamenn og atvinnurekendur. Launamenn beita beittasta vopni sínu til þess að ná fram mikilsverðum kröfum.
Sjómenn hafa ekki náð kjarasamningi síðan 2009 og fengu loks nýjan kjarasamning eftir langt verkfall. Það er kannski mikilsverðasti árangur þeirra. En að öðru leyti ber niðurstaðan þess merki að sjómenn hafa farið halloka í glímunni við útgerðarauðvaldið. Fátt í kjarasamningnum snertir aðalatriði málsins og veigamestu kröfurnar. En miklu púðri var eytt í aukaatriði og þá jafnvel í faðmlögum við útgerðina.

Húsbóndalöggjöfin

Staða sjómanna er veik. Veigamiklar skýringar er að finna í löggjöfinni um ráðstöfun kvótans eins og rakið var í leiðara síðasta tölublaðs. Lögin gera útgerðarauðvaldið að húsbændum og sjómenn að vinnuhjúum. Útgerðin ræður kvótanum, hún ræður fiskverðinu, hún ræður vigtuninni, hún ræður fiskvinnslunni og hún ræður útflutningsfyrirtækjunum. Þetta er hringborð hagsmunanna, þar sem sami aðilinn situr í öllum sætunum og færir til verðmætin á milli fyrirtækjanna eftir því sem honum best hentar. Sjómenn fá það sem þeim er skammtað úr sérhagsmunahnefanum. Þeir eiga eðlilega erfitt um vik að verja sína stöðu og illt verður verra þegar leitað er til stjórnmálaflokkanna. Hvort sem þeir eru til hægri eða vinstri hafa þeir allir legið eins og húsbóndahollir rakkar undir ofurvaldi útgerðarinnar, þegar á hefur reynt. Ömurlegt var horfa upp á einu hreinu vinstri stjórn landsmanna frá lýðveldisstofnun bogna undan sérhagsmununum og innsigla hlutskipti launamanna sem ómálga vinnuhjú í 19. aldar bændaþjóðfélaginu fyrir daga almenns atkvæðaréttar. Í þessu umhverfi vinnur launþegahreyfingin enga sigra.

Staða sjómanna er afleiðing af pólitísku vandamáli þar sem flokkar alþýðunnar hafa vanrækt það grundvallarhlutverk sitt að tryggja launamönnum þjóðfélagsleg völd og áhrif til jafns við völd kapitalistanna sem auðurinn í fiskveiðikvótanum hefur búið til. Valdaröskunin í þjóðfélaginu elur af sér hina nýju íslensku yfirstétt. Tölur Ríkisskattstjóraembættisins sýna að árið 2015 áttu um 20 þúsund manns 1880 milljarða króna eða 64% af öllum eignum landsmanna. Ríkasta 1% landsmanna fékk 42 milljarða króna í fjármagnstekjur þetta sama ár 2015. Auður er völd og meiri auður færir meiri völd. Í réttlátu þjóðfélagi er fólki sköpuð jöfn tækifæri. Úthlutun kvótans byggir ekki á jöfnum tækifærum. Kvótakerfið er ranglætið holdi klætt og upp af því ranglæti vex aðeins ójöfnuður og meira ranglæti.

Markmiðin sem ekki náðust

Yfirlýst markmið forystu sjómanna með verkfallaðgerðum var að fá bætt afnám sjómannaafsláttarins, að fá laun sjómanna miðuð við fullt markaðsverð á fiski en ekki 80%, að fá olíuverðsviðmiðun lækkaða til samræmis við raunverulegan kostnað útgerðar af olíukaupum og að kasta nýsmíðaálaginu á öskuhauga þrælakúgunarinnar. Þetta voru þau fjögur helstu atriði sem fram komu hjá forystumönnum sjómanna í upphafi verkfallsaðgerða. Eftir 10 vikna verkfall var skrifað undir samninga þar sem ekkert af þessum atriðum náðist fram. Ekkert.

Nýsmíðaálagið verður óbreytt til 2031, næstu 14 árin. Minna má ekki gagn gera fyrir auðugustu útgerðarmenn gervallrar Íslandssögunnar en að áhöfnin á nýju skipi greiði með launum sínum sérstakt styrktarframlag til Samherja, HB Granda og HG Hnífsdal svo dæmi séu nefnd.

Olíuverðsviðmiðuninni var í engu breytt frá kjarasamningnum sem sjómenn felldu. Þar stendur allt óbreytt. Miðað við olíuverðið í heiminum eru 30% af aflaverðmætinu dregið frá til þess að standa undir 11% kostnaði vegna olíukaupa. En þó náðist fram að 0,5% af aflaverðmætinu bætist við til skipta á gildistíma samningsins og fellur svo aftur niður. Það er árangur og ber ekki að vanmeta hann. En hann er ekki mikill.

Svipaða sögu er að segja af fiskverðinu. Þar breytti verkfallið ekki því að gefa á útgerðarmanni sem á eigin fiskvinnslu afslátt af markaðsverði. Það er á kostnað sjómanna. Ekkert náðist fram sem líta má á bætur fyrir sjómannaafslátt. Þetta voru stóru málin.

Hins vegar fengust úrbætur í minni atriðum sem ekki snerta hlutaskiptin, svo sem varðandi fæðiskostnað og vinnufatnað. Samið var um 300 þús króna eingreiðslu , sem líta má að sem nokkurs konar bætur fyrir verkfallið. Bókanir um að ræða ágreiningsmálin á samningstímanum eru ekki nýjar af nálinni og hafa ekki skilað neinum ásættanlegum árangri fyrir sjómenn. Á það er ekki rétt að byggja vonir um kjarabætur.

Vandi forystu sjómanna

Það er einstakt í þessari deilu að sjómenn hafa fellt tvisvar það sem forystumenn þeirra hafa samið um. Í þriðja sinn komu forystumennirnir með samning sem var illa tekið, þótt svo að naumur meirihluti hafi samþykkt hann. Það virðist sem að helstu samningamenn sjómanna hafi ekki áttað sig á því hvað umbjóðendur þeirra vildu. Þetta vekur upp spurningar um stöðu forystu sjómanna. Nýtur hún trausts og eru forystumennirnir að beita sér fyrir þeim kjaramálum sem raunverulega brenna á sjómönnum? Forysta sjómanna verður að gera sér grein fyrir því að hún sækir umboð sitt til sjómanna en ekki útgerðarmanna. Hún á frekar að vera í faðmlögum við hásetana en kvótagreifana.

Kristinn H. Gunnarsson

" onclick="return fbs_click()" target="_blank" class="fb_share_link">Deila á Facebook

Athugasemdir