Byggðastofnun, júní 2002

Greinar
Share

Iðnaðarráðherra, alþingismenn, sveitarstjórnarmenn, fulltrúar félaga, stofnana og atvinnuþróunarfélaga og aðrir góðir gestir.
Ég vil fyrir hönd Byggðastofnunar bjóða ykkur öll velkomin á þennan þriðja ársfund Byggðastofnunar, en með nýjum lögum um Byggðastofnun var kveðið á um á árlega skuli halda slíkan fund. Þar verði gerð grein fyrir starfsemi Byggðastofnunar og fjallað um aðgerðir og horfur í byggðamálum.
Fyrsti ársfundurinn var haldinn á Norðurlandi, nánar tiltekið á Akureyri, í fyrra varð Selfoss fyrir valinu og nú er ársfundurinn haldinn á Vestfjörðum.

Að þessu sinni er ársfundurinn í raun tvískiptur og eftir hádegi verður sérstakt málþing um byggðamál. Er það ákveðið með hliðsjón af áliti meirihluta iðnaðarnefndar Alþingis sem mælti með því í áliti sínu um þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002 – 2005 að annað hvert ár verði haldið Byggðaþing fyrir tilstuðlan iðnaðarráðherra og þar kynni einstök landssvæði stöðu sína og áætlanir í byggðamálum. Byggðaþing verði fyrst haldið árið 2004.
Nú háttar svo til að ríkisstjórnin hefur lagt fram stefnu sína í byggðamálum og einnig að Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur í framhaldi af því lagt fram eigin stefnu og þótti stjórn Byggðastofnunar tilvalið að nota tækifærið og halda nokkurs konar Byggðaþing sem má líta á sem undanfara fyrsta byggðaþingsins eftir tvö ár. Þar munu fulltrúar Fjórðungssambands Vestfirðinga, iðnaðarráðuneytisins og Háskólans á Akureyri flytja erindi og að þeim loknum verður opnað fyrir umræður og fyrirspurnir.

Í ársskýrslu Byggðastofnunar fyrir árið 2001, sem liggur hér frammi , er gerð grein fyrir starfsemi stofnunarinnar og vil ég nefna fáein atriði.

Í fyrsta lagi er lánastarfsemi langsamlega umsvifamest og að lánveitingarnar byggjast á því að stofnunin tekur lán sem eru endurlánuð með um það bil 2% vaxtamun. Lögum samkvæmt á að vera reikningslegur aðskilnaður milli lánastarfsemi stofnunarinnar og annarrar starfsemi og jafnframt er lögbundið að fjárhagslegt markmið lánastarfsemi Byggðastofnunar skuli vera að varðveita eigið fé stofnunarinnar að raungildi.
Það er því mikill misskilningur í opinberri umræðu um lánastarfsemi Byggðastofnunar að árlega sé veitt milljörðum króna af almannafé í lánveitingar. Að jafnaði hefur lánastarfsemin staðið undir sér með þessum vaxtamun sem áður var nefndur þótt vissulega séu undantekningar frá því.

Í fyrra var veitt 50 mkr. af fjárlögum í afskriftarreikning vegna útlána og það er ekki há fjárhæð þegar litið er til þess að ný útlán voru 1800 mkr. Þegar frá framlögum í afskriftarreikning eru dregnar fjárhæðir vegna kaupa á hlutabréfum, en þau kaup tilheyra í raun ekki lánastarfseminni, var lánastarfsemin ekki íþyngjandi fyrir fjárhag stofnunarinnar á síðasta ári.
Byggðastofnun nýtur þess að vera í eigu ríkisins og fær hagstæð lán sem kemur svo fram í endurlánum til viðskiptavina stofnunarinnar. Vaxtakjör eru með því besta sem stendur til boða fyrir atvinnufyrirtæki á landsbyggðinni og er þannig stuðlað að því að jafna starfsskilyrði fyrirtækja á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Lánað er til fjárfestinga fyrst og fremst og þannig sinnir stofnunin því hlutverki sínu að stuðla að atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni.
Á hverju máli eru jafnan tvær hliðar og hin hliðin á þessu máli er að í samanburði við ýmiss nágrannalönd okkar eru 7,7% ársvextir auk verðtryggingar ekki hagstæð kjör heldur okurvextir sem virka hamlandi á nýsköpun í atvinnulífinu. Það er því fráleitt að líta á lánskjör Byggðastofnunar sem ívilnandi og ígildi styrkveitingar í samanburði við kjör viðskiptabankanna. Miklu fremur eiga menn að spyrja sig hvort þetta bendir til þess að viðskiptabankarnir séu óhagkvæmir og illa reknir í samanburði við banka erlendis og að óstöðugleiki í íslensku efnahagslífi sé meiri en erlendis. Það er því engin furða að vakin hafi verið athygli á því að meiri stöðugleiki og lægri vextir í kjölfarið geti lækkað útgjöld íslenskra fyrirtækja um tugi milljarða króna árlega. Undanfarna mánuði hefur verið mikil sveifla á gengi íslensku krónunnar og miðað við USD dollar farið úr liðlega 110 kr í 89 kr. Þessi sveifla bitnar af fullum þunga á útflutningsatvinnuvegunum með lækkun tekna fyrirtækjanna, þótt hún hafi komið sér vel í því skyni að halda verðlagi innan rauðu strikanna í vor. Ég hef verulegar efasemdir um að gengi ísl. krónunnar hafi í raun ákvarðast af eðlilegum markaðsforsendum á þessum tíma. Búast má svo við að á næstunni lækki krónan í verði að nýju þegar eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri eykst.
Á hverjum tíma er fyrir atvinnulífið besta byggðastefnan fólgin í efnahagslegum stöðugleika og aðgangi að fjármagni á sömu kjörum og bjóðast í samkeppnislöndunum. Þessi sífelldi fjármagnsflutningur frá útflutningsfyrirtækjum til innflutnings gegnum gengisskráningu grefur undan starfsemi margra fyrirtækja á landsbyggðinni og þjónustufyrirtækja kringum þau og stuðlar að vaxandi áhuga á því að taka upp gjaldmiðil svo sem evruna.

Í öðru lagi vil ég vekja athygli á því að undanfarin 3 ár hefur Byggðastofnun fengið 900 mkr. framlag úr ríkissjóði til eignarhaldsfélaga. Það hefur leitt tilþess að eiginfjárstaðan hefur styrkst verulega og er eigið fé stofnunarinnar tæplega 2200 mkr. og eiginfjárhlutfallið er um 16,6% um síðustu áramót. Ef ekki hefði komið til þessa framlags hefði stofnunin verið vanbúin til þess að auka útlán sín á þessum tíma þar sem eigið féð var lágt og það takmarkar útlánagetuna.
Höfuðstóll Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er um 5 milljarðar króna og sá sjóður kaupir hlutafé fyrir um 800 mkr. á þessu ári en er sáralítið í lánveitingum. Mér er engin launung á því að ég tel að sameina eigi þessa sjóði. Við það fengist sjóður með mikla útlánagetu sem fjárfesti líka í atvinnulífinu með beinum hætti. Þannig væri hægt að samhæfa aðgerðir til uppbyggingar í atvinnulífi og beita lánveitingum , hlutafjárkaupum og styrkveitingum með samræmdum hætti. Ég minni á álit meirihluta iðnaðarnefndar Alþingis sem fram kom í vor um þingsályktun ríkisstjórnarinnar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002-2005 Þar kemur fram að nefndin telur mikilvægt að efla samstarf sjóða ríkisins sem tengjast nýsköpun og atvinnugreinum og telur jafnframt að enn skynsamlegra gæti verið að sameina umræddar stofnanir að mestu leyti í eina stofnun. Hvatt er til þess að skoðun á kostum þess verði hafin þegar í stað og lokið fyrir árslok 2002 . Með sameiningu sjóðanna næst betri sýn yfir atvinnulífið og byggðir og skilvirkni eykst til muna.

‘I þriðja lagi vil ég vekja athygli á því að ákveðið var að byrja á ný að veita ábyrgðir til þriðja aðila. Á síðasta voru veittar ábyrgðir á afurðalán viðskiptabankanna til sláturleyfishafa og eitt fyrirtæki fékk ábyrgð á lánveitingu sinni hjá erlendum fjárfestingarbanka. Með þessu lækkar vaxtakostnaður þeirra sem ábyrgðina fengu til muna. Þróunarfélagi Austurlands var veitt ábyrgð á sölu sæta í áætlunarflug Lufthansa til Egilsstaða, sem hófst fyrir nokkrum dögum.Á þessu ári var svo gengið frá ábyrgð á láni menntastofnunar, viðskiptaháskólans á Bifröst, sem skólinn tók til að fjármagna skólabyggingu og er forsenda þess að skólinn geti boðið upp á nýtt nám og fjölgað nemendum.
Þessi síðasta ábyrgðarveiting er alger nýung, veitt er ábyrgð með skírskotunar til þess hlutverks Byggðastofnunar að efla byggð í almennum skilningi , en í trausti þess að aðsókn að skólanum verði stöðug á lánstímanum og að skólinn fái fjárveitingar í samningum við Menntamálaráðuneytið sem standi undir afborgunum og vöxtum af lánunum.

Í fjórða lagi vil ég geta um lánveitingar til loðdýrabænda. Það mál hefur verið til umfjöllunar síðan á síðasta ári og kemur stofnunin að því til þess að tryggja framhald á loðdýrarækt á Íslandi. Á stjórnarfundi í síðustu viku var samþykkt að veita liðlega 100 milljóna króna lán til 16 loðdýrabænda gegn því að viðskiptabankarnir felli niður verulegar fjárhæðir og er þess vænst að grundvöllur hafi skapast fyrir áframhaldandi rekstur þessarar búa með þessari ákvörðun Byggðastofnunar auk aðgerða ríkisstjórnarinnar til þess að greiða niður fóður um 90 mkr. um þriggja ára skeið 2001 – 2003.

Á síðasta ári var gerður samstarfssamningur milli Byggðastofnunar og Félagsmálaráðuneytisins um starfsemi atvinnu- og jafnréttisráðgjafa. Þegar hefur einn ráðgjafi verið ráðinn með starfsaðstöðu á Blönduósi og sinnir einkum Norðvesturkjördæminu nýja. Á þessu ári verður ráðinn annar ráðgjafi fyrir Norðausturland og á næsta sá þriðji á næsta ári fyrir Suðurkjördæmið nýja. Þetta verkefni er framhald af starfi jafnréttisráðgjafa á Blönduósi á vegum Félagsmálaráðuneytisins og Jafnréttisráðs og lýtur fyrst og fremst að því að styðja konur til atvinnuþátttöku og atvinnurekstrar. Reynslan þykir góð og var ráðist í að útvíkka verkefnið þannig að það nær til allra landsbyggðarkjördæmanna.

Á árinu flutti Byggðastofnun frá Reykjavík í samræmi við ákvörðun stjórnar sem tekin var í júnímánuði 2000. Segja má að undirbúningur hafi tekið þann tíma sem ég átti von á eða um eitt ár. Það sem helst kom á óvart voru vanefndir við afhendingu húsnæðisins sem tekið hafði verið á leigu á Sauðárkróki. Samið hafði verið um afhendingu 1. júní en það var ekki fyrr en 5 mánuðum seinna að afhendingu var lokið og þá fyrst var hægt að huga að breytingum á húsnæðinu. Þær tóku mun lengri tíma en ætla mátti og var þeim ekki lokið fyrr en undir vorið 2002.
Tölvudeild stofnunarinnar var lögð niður við flutninginn norður og samið við fyrirtækið Skrín á Akureyri án útboðs um þjónustu bæði á hugbúnaði og tölvubúnaði. Þetta fyrirkomulag hefur gengið vel og engin vandkvæði komið upp. Ágætlega hefur gengið að manna stofnunina og virðast ekki vandkvæði á því að fá vel menntað og hæft starfsfólk til starfa utan höfuðborgarsvæðisins ef störfin eru í boði.

Mikil umræða hefur orðið ítrekað um þá ákvörðun stjórnarinnar að semja við fjármálastofnun um afgreiðslu og innheimtu lána og fjármálaumsýslu tengda því. Hefur mátt lesa á opinberum vettvangi ýmsar fullyrðingar um þetta mál sem eiga lítil sem engin rök við.

Af þessu tilefni er á hinn bóginn óhjákvæmilegt að gera grein fyrir aðalatriðum þessa máls. Kjarni málsins er að um lítinn þátt er að ræða í starfsemi stofnunarinnar og mér er til efs að endanlegur samningur verði umfangsmeiri en samningurinn við Skrín á Akureyri um tölvu- og hugbúnaðarþjónustuna.Þetta er í rauninni smámál og fellur undir praktíska lausn á verkefni sem varðar lítinn þátt í starfsemi Byggðastofnunar.

Haustið 1999 setti Alþingi ný lög um Byggðastofnun. Þar var að finna m.a. þau nýmæli í 11. grein laganna er kveðið á um að stjórn Byggðastofnunar geti tekið ákvörðun um að gera samninga um að fela fjármálastofnunum afgreiðslu og innheimtu lána, sem og aðra fjármálaumsýslu stofnunarinnar. Þetta ákvæði mætti engri andstöðu á Alþingi, þvert á móti voru nokkrir alþingismenn sem vöktu athygli á þessu nýmæli í umræðu um málið og fögnuðu því. Afgreiðsla og innheimta lána er ekki meginatriði í starfsemi Byggðastofnunar og það þótti ekki ólíklegt að bankastofnun gæti sinnt þessum þætti með ódýrari hætti en stofnunin sjálf.

Þegar stjórnin samþykktir 6.6. 2000 að leggja til við Iðnaðarráðherra að flytja Byggðastofnun til Sauðárkróks er jafnfram ákveðið að nýta þessa lagaheimild og semja við fjármálastofnun um þessa þætti.
Í bréfi mínu til ráðherra samdægurs stendur eftirfarandi: “’A fundi stjórnar Byggðastofnunar þriðjudaginn 6. júní 2000 var einróma samþykkt að leggja til við ráðherra að starfsemi Byggðastofnunar í Reykjavík verði flutt á Sauðárkrók að öðru leyti en því að stjórnin ákvað að nýta sér heimild í 11. grein laga um Byggðastofnun og semja við fjármálastofnun um afgreiðslu og innheimtu lána svo og aðra fjármálaumsýslu stofnunarinnar eftir því sem fært þykir og um semst. Gert er ráð fyrir að sú breyting leiði ekki tilkostnaðarauka.”
Ekki var kveðið á um í bókuninni hvaða fjármálastofnun var um að ræða enda var um almenna samþykkt að ræða sem var óbundinn tiltekinni bankastofnun og er ákvörðun um að fara þessa leið, en til að hrinda henni í framkvæmd þarf síðar að leggja fyrir stjórnina samning til staðfestingar við tilgreindan aðila. Hins vegar var samkomulag í stjórninni að leita samninga við Sparisjóð Bolungavíkur.

Næsta skref var að stjórnin gerði sér grein fyrir því um hvað nákvæmlega ætti að semja við viðkomandi fjármálastofnun og á stjórnarfundi 28. ágúst sama ár leggur þáverandi forstjóri Guðmundur Malmquist fyrir stjórnina minnisblað, sem stjórnin samþykkti, þar sem er lögð til tímaáætlun og skilgreind nánar þau verkefni sem ætlað er að bankastofnunin taki að sér.
Að þessu loknu hófust viðræður fáum dögum síðar við Sparisjóð Bolungavíkur og auk mín voru á fyrsta fundinum bæði forstjóri og forstöðumaður rekstrarsviðs Byggðastofnunar. Eftir það stóðu viðræður yfir til næsta vors 2001 og af hálfu Byggðastofnunar var forstöðumaður rekstrarsviðs í forsvari fyrir þeim ásamt forstjóra.

Samhliða var athugað að minni beiðni lögfræðileg hlið málsins, einkum hvort um útboðsskyldu væri að ræða Að höfðu samráði við Iðnaðarráðuneyti og Fjármálaráðuneyti um túlkun laganna voru unnin samningsdrög sem talið er að samrýmist umræddum lögum. Í fyrsta lagi er umfang þjónustukaupanna svo lítið að allar líkur standa til þess að samningsfjárhæð verði undir lágmörkum og í öðru lagi standa sterk rök til þess að kaupin á þesssari þjónustu falli alls ekki undir lögin.
Vilji löggjafans, Alþingis, liggur t.d. skýr fyrir en í áliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis segir :”Varðandi gildissvið frumvarpsins bendir meirihlutinn á að starfsemi fjármálastofnana í eigu ríkisins sem teljast að hluta til reknar í samkeppnisumhverfi með stærstan hluta tekna sinna af viðskiptum við einkaaðila er undanþegin ákvæðum þess. Dæmi um slíkar stofnanir eru Lánasjóður landbúnaðarins og Byggðastofnun.”
Þannig stóðu málin á síðasta vori, fyrir lágu drög að samningi og handsalað var milli aðila að gerður yrði samningur. Beðið var lausnar á nokkrum tæknilegum atriðum og ákveðið að bíða haustsins. Á fundi stjórnar 8. júní 2001 gerir forstjóri grein fyrir flutningi stofnunarinnar norður og samningum við Sparisjóðinn. Bókað er eftirfarandi : “Samningur við Sparisjóð Bolungavíkur vegna umsjónar með lánum og innheimtu væri í undirbúningi og væri unnið að tæknilegri útfærslu á verkefninu”
Í desember sl. er stjórn Byggðastofnunar gerð grein fyrir viðræðunum og ber þá fulltrúum Sparisjóðsins og Byggðastofnunar algerlega saman um samningsatriði og stöðu málsins. Er talið að um 2 störf geti verið að ræða. Stjórnarmenn óskaðu þá eftir því að fá samningsdrög þar sem fram kæmu allar fjárhæðir þannig að þeir gætu tekið endanlega afstöðu til málsins. Ekkert hefur frekar gerst og á stjórnarfundi í síðustu viku var afstaða stjórnar frá því í desember áréttuð og forstjóra falið að leggja drög að samningi við Sparisjóðinn á næsta stjórnarfundi. Ljóst er að það kemur í hlut nýs forstjóra að ljúka samningsgerð og leggja fyrir stjórn til afgreiðslu.
Hér hef ég gert nokkuð ítarlega grein fyrir þessu máli. Það var óhjákvæmilegt og nauðsynlegt að staðreyndir málsins komi fram. Að málinu hefur að öllu leyti verið eðlilega staðið og í fullu samræmi við lög.

Eitt til viðbótar vil ég nefna varðandi þetta mál , en því hefur gjarnan verið bætt við í umfjöllun um málið að semja ætti við Sparisjóð Bolungavíkur sem er í heimabæ stjórnarformannssins. Þetta hefur mér fundist ómakleg umfjöllun. Með þessu er verið að gefa í skyn að óeðlilegt sé að stofnun ríkisins semji við fyrirtæki í heimabæ stjórnarformanns stofnunarinnar. Minn skilningur er sá að slíkir samningar séu aðeins óeðlilegir ef um er að ræða hagsmunatengsl stjórnandans við fyrirtækið sem semja á við, svo sem fjárhagsleg eða skyldleiki milli manna. Um ekker slíkt er að ræða í þessu tilviki og er ég t.d. ekki stofnfjáreigandi í sparisjóðnum eða stjórnarmaður. Stjórnendur stofnana á Höfuðborgarsvæðinu eiga í miklum viðskiptum við fyrirtæki þar án útboðs. Á það við um bæði verkkaup og þjónustukaup og hef ég ekki orðið var við að gerð væri athugasemd við það. Spyrja má hvort það hefði verið óeðlilegt að Byggðastofnun samdi við Skrín á Akureyri ef ég væri þaðan en eðlileg fyrst ég er ekki frá Akureyri ? Kjarni málsins er sá að um viðskipti er að ræða og Sparisjóður Bolungavíkur er öflug fjármálastofnun sem aldrei hefur notið ríkisstyrkja eins og t.d. Landsbankinn hefur fengið og síðast 1993 og getur leyst verkefnið vel af hendi og fyrir hagstætt verð.

Einn angi þessa máls birtist í ályktun oddvita þeirra framboða sem sæti eiga í nýkjörinni sveitarstjórn í Skagafirði en þar segir að sveitarstjórnin hafni öllum áformum um flutning einstakra rekstrarþátta stofnunarinnar frá Sauðárkróki, enda sé það skilningur sveitarstjórnar að engin endanleg ákvörðun hafi verið tekin um slíkan flutning innan stjórnar Byggðastofnunar. Til viðbótar þessu segir í ályktuninni að hugmyndir um flutning á starfsemi Byggðastofnunar frá Sauðárkróki séu andstæðar hagsmunum landsbyggðarinnar.
Ég hef fullan skilning á því að sveitarstjórnarmenn í héraði vilji standa vörð um þau störf sem eru í boði af hálfu ríkisvaldsins í héraðinu en hagsmunagæslan er vandmeðfarin og í þessu tilviki er um beina íhlutun að ræða í störf stjórnar Byggðastofnunar. Stofnanir ríkisins heyra ekki undir sveitarstjórnir og stjórnendur þeirra stofnana verða að fá að sinna sínu verki óáreittir. Byggðastofnun hefur eigin stjórn og það er ekki sveitarstjórnar að hafna einstökum ákvörðunum stjórnarinnar eða samþykkja þær, hvað þá að gefa út hvað felist í samþykktum stjórnar. Stjórnarmenn í Byggðastofnun stóðu allir að því að leggja til að starfsemi stofnunarinnar í Reykjavík, önnur en afgreiðsla og innheimta lána yrði flutt til Sauðárkróks, og þeir stóðu allir að því að ákveða að semja við fjármálastofnun um innheimtu og afgreiðslu lána. Fyrir engum þeirra vakti að standa í deilum við sveitarstjórn í Skagafirði við að eitt að framfylgja ákvörðun sinni.

Ríkisvaldið verður á hverjum tíma að geta gert þær breytingar sem nauðsynlegar eru á stofnunum sínum , hvort sem það er breyting á verkefnum stofnunar eða hlutverki, eða jafnvel að sameina hana annarri stofnun eða leggja niður. Hætt er við ef mál þróist svo að sveitarstjórnarmenn telja það sitt hlutverk að berjast á móti breytingum með kjafti og klóm eða að hafa afskipti af ákvörðunum stjórnenda í því skyni að fá þeim breytt, að menn hugsi sig tvisvar um áður en kemur til frekari flutnings á stofnunum eða verkefnum frá hofuðborgarsvæðinu. Fáir verða til þess að taka undir það að það sé andstætt hagsmunum landsbyggðarinnar að semja við bankastofnun á Vestförðum um innheimtu og afgreiðslu lána stofnunarinnar. Ég vil hvetja sveitarstjórnarmenn til þess að sýna aðgát í hagsmunagæslu en leggja sig frekar fram um að hafa gott samstarf við stjórnendur stofnana og fyrirtæki ríkisins og virða hlutverk þeirra og leitast frekar við að skapa starfsemi þeirra aðlaðandi umhverfi.

Um nokkurt skeið hefur staðið til að endurskoða samninga við atvinnuþróunarfélögin, en vegna flutnings stofnunarinnar til Sauðárkróks hefur tafist að ljúka því máli. Í samþykkt ríkisstjórnarinnar um stefnu í byggðamálum, sem hefur hlotið umfjöllun Alþingis, eru kynnt áform um að auka verulega fé til atvinnuþróunarstarfs. Í dag eru samningar Byggðastofnunar samtals um 103 mkr.og áformað að tvöfalda þá fjárhæð. Við þessar aðstæður er rétt að bíða með endurskoðun samninga þar til fjárveitingar hafa aukist eins og ríkisstjórnin stefnir að að öðrum kosti yrði um tvíverknað að ræða. Stjórn Byggðastofnunar ákvað því á fundi sínum í gær að hætta við fyrirhugaða endurskoðun samninganna og samþykkt var að framlengja gildistíma núverandi samninga þar til nýir samningar hefðu verið gerðir á grundvelli áforma ríkisstjórnarinnar og að samningarnir tækju verðlagsbreytingum. Þó ákvað stjórnin að hækka fjárhæð þjónustusamninga við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Þróunarstofu Austurlands um 2 mkr. hjá hvoru félagi um sig þegar á þessu ári. Með þessu vill stjórnin styrkja starfsemi atvinnuþróunarfélaganna á veikustu svæðum landsins og hvetur aðra aðila svo sem sveitarfélög til þess að auka sín framlög til félaganna. Þá var einnig samþykkt að styrkja sérstaklega átak í atvinnumálum á Siglufirði með 2 mkr. framlagi, einni milljón kr. á þessu ári og sömu fjárhæð á næsta ári. Væntir stjórn Byggðastonunar að með þessum ákvörðunum hafi allri óvissu verið eytt sem eðlilega fylgir áformum um endurskoðun samninganna og að atvinnuþróunarfélögin geti vænst þess að þegar samningarnir verði teknir til endurskoðunar þá verði það í ljósi stóraukinna fjárveitinga.

Á síðastliðnu vori voru gerðar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Eitt af því sem þar kom inn var ákvæði um 1500 tonna kvóta sem sjávarútvegsráðherra á að úthluta í samráði við Byggðastofnun til byggðarlaga þar sem orðið hefur verulegur samdráttur í sjávarútvegi á undanförnum árum. Tekur ákvæðið þegar gildi með 500 tonna úthlutun á þessu fiskveiðiári og síðan 1500 tonnum árlega frá og með næstu fiskveiðiáramótum. Þessi kvóti er til viðbótar þeim 1500 tonnum sem Byggðastofnun var falið fyrir þremur árum að úthluta til fimm ára. Af þeim tíma eru eftir tvö ár of við lagabreytingarnar núna var þessu ákvæði breytt á þann veg að það verður ótímabundið í stað þess að falla niður að tveimur árum liðnum. Samtals verður byggðakvótinn 3000 tonn og þeim framvegis úthlutað af sjávarútvegsráðuneyti í samráði við Byggðastofnun.
Stjórn Byggðastofnunar fjallaði um þetta mál á fundi sínum í Bolungavík í gær og varð niðurstaðan að hún leggur áherslu á að 500 tonnum þessa árs verði úthlutað nú og að stuðst verði við þær reglur sem stofnunin lagði til grundvallar fyrir 3 árum með nokkrum breytingum, einkum þeim að meira verði litið til breytinga á lönduðum eða unnum afla en breytinga á kvótastöðu. Önnur atriði sem athuguð eru eru hlutur fiskvinnslu og fiskveiða í atvinnulífi byggðarlagsins og breyting á ársverkum í þessum atvinnugreinum, meðaltekjur, fólksfækkun og íbúafjöldi. Var þróunarsviði stofnunarinnar falið að móta reglur í samráði við sjávarútvegsráðuneytið og stjórn Byggðastofnunar og lögð rík áhersla á að hraða málinu og horft verði til þess að nokkrir staðir búa við sérstakan vanda í atvinnumálum vegna samdráttar í sjávarútvegi og að þörf er á að bregðast skjótt við. Þar eru helstir Patreksfjörður, Þingeyri, Hrísey, Raufarhöfn, Breiðdalsvík og Sandgerði.

Innan stjórnar hafa verið til umræðu að undanförnu erindi sem varða uppbyggingu dreifikerfis sjónvarps á landsbyggðinni. Stofnunin lánði fé til fyrirtækis fyrir nokkru sem keypti allmarga senda og hugðist byggja upp sérstakt dreifikerfi fyrir útsendingar sínar. Þau áform hafa ekki gengið eftir og hefur fyrirtækið verið úrskurðað gjaldþrota. Byggðastofnun á veð í þessum búnaði vegna lánveitingarinnar sem áður var getið. Í gær ákvað stjórnin að eignast viðkomandi senda og beita sér fyrir uppbyggingu dreifikerfis Sýnar, Skjás eins og Aksjón á Akureyri í samráði við þessi fyrirtæki. Var starfsmönnum Byggðastofnunar falið að undirbúa tillögur um uppsetningu sendanna á stöðum í dreifbýlinu í samráði við fyrrgreind fyrirtæki. Stefnt er að því að útsendingarsvæði Aksjón geti náð yfir stærri hluta Eyjafjarðar en nú er og auk þess til Skagafjarðar og Þingeyjarsýslna og Húsavíkur. Norðurljós hf hafa lýst yfir áhuga á samstarfi ámþví að stækka útsendingarsvæði Sýnar til þessara staða : Reykhólar, Tálknafjörður, Bíldudalur, Flateyri, Suðureyri, Súðavík, Hólmavík, raufarhöfn, Mývatnssveit, Stöðvafjörður, Breiðdalsvík, Vík, Kirkjubæjarklaustur auk uppsveita Borgarfjarðarsýslu og Árnessýslu.
Þá hefur Íslenska sjónavrpsfélagið óskað eftir viðræðum við Byggðastofnun vegna stækkunar á dreifikerfi Skjás eins.
Þessi ákvörðun stjórnarinnar markar tímamót að mínu viti. Ákveðið er að stofnunin beiti sér með beinum hætti að uppbyggingu dreifikerfis í dreifbýli og bætir búsetuskilyrði fólks á þeim svæðum sem uppbyggingin nær til, bæði með því að stækka útsendingarsvæði stöðva frá Reykjavík og líka hinu að efla sérstaka sjónarvarpsstöð á landsbyggðinni. Hinn valkosturinn í stöðunni var að selja tækin og fá greitt inn á lánin sem hvíla á þeim. Ég er í engum vafa um að þessi ákvörðun samræmist fyllilega því hlutverki Byggðastofnunar að efla byggð í landinu og verður íbúum landsbyggðarinnar fagnaðarefni.

Þá vil ég geta þess að stjórnin ákvað í gær að styðja við bakið á viðleitni einstaklinga til framfara í samgöngumálum. Ákveðið var að styrkja fyrirtækið Leið ehf um eina milljón króna til þess að kosta svonefnt rýni á veglínu og fleiri atriði sem varða undirbúning að því að kanna vegalagningu milli Hólmavíkur og Gilsfjarðar. Þessi leið myndi stytta vegalengd milli Ísafjarðar og Reykjavíkur um 40 km og koma á heilsárssamgöngum milli Strandasýslu og Reykhólahrepps. Með þessu vill stjórnin taka undir áherslur Vestfirðinga um að úrbætur og framfarir í samgöngumálum í eru lykilatriði í viðleitni til þess að efla byggð í fjórðungnum.

Ég að lokum minnast á það sem þegar er opinbert að ég hef ákveðið að gefa ekki kost á mér til frekari setu í stjórn Byggðastofnunar að sinni. Ég tel það nauðsynlegt til þess að skapa frið um stofnunina og stuðla að því að þeir sem þar starfa, starfsmenn og stjórn geti einbeitt sér að verkefnum stofnunarinnar. Mínir hagsmunir eru víkjandi í þessu mati og raunar er það hlutskipti stjórnmálamannsins að taka að sér hlutverk eins og stjórnarformennsku til skamms tíma í senn. Vitað var að ég hefði látið af stjórnarformennsku að afloknum næstu Alþingiskosningum að ári hvort sem er. Ég vil láta það koma rækilega fram að ég ekki átt frumkvæði að opinberri umræðu um málefni stofnunarinnar undanfarnar vikur og hef leitast við að gæta hófs í ummælum, lagt ríka áherslu á að ágreiningsefni eigi að leysa innan stofnunar og með því að menn virði hlutverk hvers annars og hef aldrei útilokað möguleika á lausn mála eða samstarfi við nokkurn mann. Ég hef lagt áherslu á eðli stofnunarinnar,lögboðið hlutverk stjórnar og að hún eigi að taka ákvarðanir sem embættismenn eigi að framfylgja hvað sem líður þeirra skoðun á ákvörðun stjórnar. Öðru vísi getur þessi stofnun ekki starfað.
Í minn garð hefur margt verið sagt sem er meiðandi, ósæmilegt og ósatt og til þess fallið að rýra traust á mér sem stjórnmálamanni. Ég vænti þess að fólk muni að virkum atvikum hvers máls komast að sanngjarnri niðurstöðu um störf mín.
Ég mun halda áfram að hafa afskipti af byggðamálum og vinna að hagsmunamálum fólks á landsbyggðinni. Ósanngirni og óréttlæti eru enn til staðar í ríkum mæli og tækifæri og möguleikar blasa víða við og á þessum akri er mikið verk að vinna ekki hvað síst fyrir mann sem grundvallar skoðun sína á stefnu samvinnu og jafnaðar.

Sem stjórnarformaður leitaðist ég við að leiða mál til lykta innan stjórnar með sameiginlegri niðurstöðu og það tókst með afbrigðum vel. Ég man ekki eftir atkvæðagreiðslu um miklisvert mál, fremur var því frestað og leitað samkomulags. Þá lagði ég ríka áherslu á að allir stjórnarmenn væru fulltrúar ráðherra í störfum sínum og því væri ekki rétt að skipta stjórn í stjórn og stjórnarandstöðu. Það hefur orðið til þess að fullur trúnaður hefur ríkt um meðferð mála og það hefur tvímælalaust styrkt stofnunina. Þeir stjórnarmenn sem tilheyra stjórnarandstöðu hafa haft áhrif og hafa á móti tekið á sig ábyrgð með okkur hinum á störfum stjórnarinnar. Ég vil færa eftirmanni mínum þau ráð að fylgja þessum vinnubrögðum og veit að það mun reynast honum vel að fylgja þeim.

Ég vil að lokum þakka Iðnaðaráðherra og starfsmönnum ráðuneytisins, stjórnarmönnum og starfsmönnum Byggðastofnunar fyrir samstarfið undanfarin ár og óska þeim velfarnaðar í störfum sínum í framtíðinni.

Ég þakka fyrir áheyrnina.

Athugasemdir