Undraland Staksteina 10. mars 2007

Greinar
Share

Staksteinar fimmtudagsins viðurkenna að mikill vandi steðji að í atvinnumálum Vestfirðinga, en ritstjóri Morgunblaðsins telur sig þess umkominn að ákveða að ekki megi ræða staðreyndirnar og ástæður þess að svona er komið. Annars verði Vestfirðingar bara svartsýnir. Þeir hafi áður unnið sig út úr vandamálum, sem m.a. urðu til vegna kvótasölu úr fjórðungnum.

Þessi veruleiki Staksteina er ekki til, ritstjórinn er týndur í Undralandinu sem hann og ráðamenn hafa búið til og ætla almenningi að trúa að sé til í raun og veru. Það er alvarlegt vegna þess að það er meginhlutverk fjölmiðla að upplýsa og að draga staðreyndir fram. Á þeim grundvelli einum að horfst sé í augun við veruleikann er von til þess að tillögur og aðgerðir skili einhverjum árangri. Staksteinarnir eru að vinna markvisst að því að afvegaleiða landsmenn og fá þá til þess að trúa því að ekkert alvarlegt sé á ferðinni, heldur aðeins staðbundinn vandi sem heimamenn geti leyst með því að þegja um hann og lofa stjórnvöldin.

Það eru ósannindi að Vestfirðingar hafi unnið úr vandanum vegna kvótasölunnar. Það er einmitt hið gagnstæða sem blasir við. Frá 1994 hefur störfum fækkað um mörg hundruð, íbúum hefur fækkað um 21%. Tekjur hafa dregist aftur úr og meðalatvinnutekjur eru nú um 18% lægri á Vestfjörðum en á höfuðborgarsvæðinu. Þær voru fyrir fáum árum þær hæstu á landinu. en nú er svæðið það þriðja tekjulægsta á landinu. Á þessum tíma hefur engin raunhækkun fasteigna orðið tímabilinu, en hækkunin hefur á höfuðborgarsvæðinu verið fjórum sinnum hærri en hækkun vísitölunnar. Vestfirðingar hafa orðið af milljóna króna verðhækkun á hverri íbúð frá 1994, sem flestir aðrir landsmenn hafa notið. Það er ekki fjarri lagi að munurinn sé um 100 þúsund króna á fermetra í fjölbýli á Ísafirði, ef miðað er við hækkunina á höfuðborgarsvæðinu. Hagvöxtur á svæðinu hefur verið neikvæður síðustu árin.

Stærsta einstaka ástæðan er gífurlegur samdráttur í aðalatvinnuvegi fjórðungsins, sjávarútvegi í kjölfar sölu á kvóta. Á síðustu árum hefur verið keyptur og leigður kvóti inn á svæðið fyrir milljarða króna á hverju ári, en það er blekking Staksteina að halda því fram að með því hafi Vestfirðingar unnið sig út úr vandanum. Þeir hafa að vissu marki bætt stöðu sína, en bera drápsklyfjar skuldanna og borga á hverju ómældar fjárhæðir út úr rekstrinum til útvalinna sem hafa fengið leyfi stjórnvalda til þess að leggja gjald á aðra að eigin vali. Slíkur rekstur berst í bökkum og er ekki sá aflvaki annars atvinnureksturs sem sjávarútvegurinn var forðum.

Um þetta vill Morgunblaðið að þagað verði, en það mun ekki verða. Stjórnvöld hafa dregið saman seglin og fækkað störfum á Vestfjörðum og að lokum þá eru almennu skilyrðin fyrir atvinnurekstur, svo sem varðandi samgöngur og fjarskipti, með þeim hætti að hátæknifyrirtæki eru að flýja af svæðinu.

Það sem þarf að gera er fyrst og fremst á valdi stjórnvalda, almennar aðgerðir sem varða aðstöðu og starfsumhverfi fyrir atvinnurekstur í fjórðungnum. Þær varða samgöngur, fjarskipti, menntun og ekki síst að frelsa helstu atvinnugreinina úr einokun og sérhagsmunum og innleiða sömu aðstæður þar og eru í öðrum atvinnugreinum. Markaðslögmálin og atvinnufrelsið eru skilyrði þess að sjávarbyggðir landsins lifni við á nýjan leik. Kjarni málsins er nákvæmlega sá að vandinn felst í pólitískri sérhagsmunagæslu.

En um það vilja Staksteinar þegja sem fastast. Undralandi Staksteina þarf að fleygja á öskuhauga sögunnar.

greinin birtist í Morgunblaðinu 10. mars 2007

Athugasemdir