Búsetumynstrið er engin tilviljun.

Greinar
Share

„en stjórnvaldsaðgerðir hafa breytt stöðu byggðanna gagnvart auðlindunum sem þær reisa tilveru sína á,“ segir Kristinn H. Gunnarsson bæjarfulltrúi í Bolungarvík en hann leiðir framboðslista Alþýðubandalagsins á Vestfjörðum í þingkosningunum á apríl n.k.

Hann var líka í efsta sæti í síðustu kosningum og þá vantaði örfá atkvæði til að hann næði kjöri. Þjóðarflokkurinn bauð þá fram og er það mál flestra sem til þekkja að framboð flokksins hafi ráðið miklu um að G-listinn kom ekki að manni á Vestfjörðum. Kristinn telur að staða þeirra hreyfinga sem byggja á einu eða fáum málum eða landssvæðum sé verri nú en verið hefur. „Almenningur er að átta sig á því að þetta er ekki leiðin til að ná fram úrbótum. Það eina sem dugar er hreyfing sem spannar allt landið og hefur stefnu í öllum þjóðfélagsmálum“ segir hann. Hreyfing vinstra megin við Alþýðuflokkinn hefur oft átt erfitt uppdráttar á Vestfjörðum. Á árum áður voru Vestfirðir, einkum Ísafjörður, eitt sterkasta vígi Alþýðuflokksins á öllu landinu, „en Alþýðuflokkurinn hefur í langan tíma ekki uppfyllt þau skilyrði sem þarf til að telja hann til vinstri,“ segir Kristinn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur líka átt mikið fylgi í fjórðungnum, ekki síst í Bolungarvík, þar sem einkaframtakið ræður ríkjum og segir Kristinn það hafa verið „geysilegt áfall fyrir sjálfstæðismennina að vinstri maður komst í bæjarstjórn.“ Alþýðuflokkurinn er nú í meirihluta með Sjálfstæðisflokknum í bæjarstjórn Bolungarvíkur. En snúum okkur að öðru:

Steingrímur Hermannsson hefur látið að því liggja að til standi að gera jarðgöng á Vestfjörðum fyrir fólk sem hugsanlega sé á förum. Hvað viltu segja um þessi sjónarmið?

Ekki annað en að forsætisráðherra er nú ekki þekktur af því að hafa gott minni. Það er greinilegt að eftir fjögur ár frá því hann var þingmaður Vestfirðinga er hann farinn að gleyma ansi miklu af þeim sjónarmiðum og viðhorfum sem hann hafði tileinkað sér sem þingmaður kjördæmisins í sextán ár.

Er hætta á enn alvarlegri búseturöskun á Vestfjörðum?

Búsetumynstrið á Vestfjörðum er engin tilviljun. Það er komið til vegna afstöðu landsins gagnvart þeim náttúrulegu auðlindum sem fólk lifir á. Á meðan byggðirnar hafa aðgang að auðlindunum sé ég ekki ástæðu til að reikna með að búsetan breytist. Hins vegar hafa stjórnvaldsaðgerðir brytt stöðu byggðanna gagnvart auðlindunum sem þær reisa tilveru sína á, með því að takmarka aðgang íbúanna að þeim. Það er ein meginástæðan fyrir andstöðu okkar Vestfirðinga við kvótakerfið.

Hvað ætti að koma í staðinn fyrir kvótakerfið?

Skýrasta dæmið um alvarlega galla kvótakerfisins er það sem gerðist á Patreksfirði fyrir rúmu ári, þegar plássið stóð allt í einu uppi kvótalaust. Sennilega liggur Patreksfjörður best allra staða á landinu við fiskimiðunum. Allt í einu stóðu Patreksfirðingar frammi fyrir því að mega ekki fara á sjó, það varð að leggja til fé úr Byggðastofnun og kaupa réttindin til að fá að fara á sjó. Það getur ekki talist skynsamlegt að Patreksfirðingar þurfi að kaupa réttinn til að fara út í álinn rétt fyrir utan hjá sér en á sama tíma koma menn á togurum frá Akureyri og Austfjörðum til að sækja þennan sama fisk sem er auðvitað miklu dýrara. Það er hægt að stjórna fiskveiðunum með verndunar- og friðunaraðgerðum en hvernig sem við útfærum fiskveiðistjórnunina verðum við að ganga út frá því að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar en ekki söluvara einstaklinga. Í öðru lagi að rétturinn til að sækja sjóinn sé ekki bundinn við tækið sem til þess er notað heldur öllu fremur fólkið sem á því lifir. Við getum skapað þjóðarsátt um fiskveiðistefnu sem byggir á þessum atriðum.

…en skrapdagakerfið gafst ekki vel.

Vissulega leysti það ekki allan vandann en fiskiskipaflotinn hefur þó vaxið miklu meira í kvótakerfinu. Þetta á við um alla skipaflokka, frá trillum til stærstu togara.

Vantar fiskvinnslustefnu? Eru Vestfirðingar t.d. ekki að veiða mikinn fisk sem aldrei er unninn á Vestfjörðum?

Það vantar tilfinnanlega fiskvinnslustefnu og Vestfirðingar eins og aðrir flytja mikinn óunnin fisk úr landi. Við þurfum að koma því svo fyrir að sem mest af fiskinum sé unnið þar sem honum er landað. Slík stefna gagnast ekki bara Vestfirðingum, heldur landmönnum öllum. Ég tel rangt að leggja svo mikla áherslu á möguleika manna til að selja óunnin fisk og tel ekki rétt að viðskipti með fisk séu tollfrjáls að öllu leyti eins og krafist er í viðræðum við Evrópubandalagið. Við þurfum að geta selt unna vöru til Evrópubandalagsins en ekki hráefni og verðum aða hafa möguleika á að geta stýrt sölunni með stjórnvaldsaðgerðum innanlands. Stefna Jóns Baldvins gengur þvert á þetta. Hins vegar kann að vera nauðsynlegt að hagræða í frystiiðnaðinum, frá þeirri frystihúsastefnu sem byggð var upp fyrir tæpum 20 árum. Með bættum samgöngum eiga menn að geta sérhæft sig meira og jafnvel fækkað húsum og dregið þar með úr þeirri fjárfestingu sem liggur á bak við hvert ársverk í fiskvinnslu, sem þýðir þá væntanlega hærri laun.

Leggjast þá ekki einhverjar byggðir af?

Nei. Með því að skapa stærri samgöngusvæði, eins og verið er að gera á Vestfjörðum geta byggðarlögin þróast eðlilega.

Geturðu búist við að í þjóðfélagi framtíðarinnar vilji fólk lifa og starfa í litlum bæjum þar sem allt byggist á fiski og fjölbreytni vantar í atvinnulíf, félagslega þjónustu og einkaþjónustu?

Vissulega hefur fólk tilhneigingu til að setjast þar að sem heilbrigðisþjónusta er öruggari og boðið er upp á meira val í menntun og almennri þjónustu. Alþýðubandalagið vill mæta þessum kröfum með því að skapa sem mest af þessum skilyrðum á minni stöðunum, með því að byggja upp stærri heildir með samgöngubótum og með því að byggja upp betri skóla og bæta félagslega þjónustu. Þessa dagana er einmitt verið að ganga frá samningi við menntamálaráðuneytið um einn framhaldsskóla á Vestfjörðum sem á að hafa höfuðstöðvar sínar á Ísafirði, en reka útibú víða í fjórðungnum. Skólinn á að taka við hlutverki Menntaskólans á Ísafirði. Ég tel að slík stefna muni leiða til þess á næstu árum muni fólk sækja meira í minni byggðirnar en áður var. Það fylgja ýmsir kostir litlum samfélögum ekki síst að því er varðar uppeldi barna.

Gerist þetta öðru vísi en að auka fjölbreytnina í atvinnulífinu?

Fiskvinnsla og sjómennska verður áfram grundvöllur atvinnulífs á þessum stöðum og þann grundvöll þarf að styrkja. Frá því að frystiiðnaðurinn varð að heilsárs vinnu er fólk búið að vinna í 20 ár í fiskvinnslu og er orðin þreytt, launin eru ekki mjög góð og margir taka þann kostinn að vera frekar heima eða flytja í burtu til að leita sér að starfi. Í flestum sjávarplássum á Vestfjörðum verður að flytja inn fólk frá Nýja-Sjálandi, Ástralíu og Póllandi til að vinna störf sem við eigum að vinna. Til að bregðast við þessu verður að bæta aðbúnaðinn í fiskvinnslunni og bæta launakjörin. Atvinnugreinin getur borgað hærri laun en hún býr við það að tekjur hennar eru þjóðnýttar að nokkru leyti með gengisskráningu, stundum að verulegu leyti eins og ’86 og ’87. Staða fyrirtækjanna hefur verið bætt nú þarf að bæta stöðu þeirra sem vinna í fiskvinnslunni. Þess vegna höfum við lagt fram hugmyndir um fiskvinnslufrádrátt sem yrði í líkingu við sjómannaafslátt en þarf ekki endilega að vera jafn hár. Slíkur skattaafsláttur hefði einfaldlega hærri skattfrjálsar tekjur í för með sér. Því má ekki gleyma að fiskvinnsla í landi er komin í samkeppni við frystitogarana, þar sem þessi sömu störf eru unnin úti á sjó og þeir sem þau vinna fá sjómannaafslátt.

Væri ekki eðlilegra að taka upp byggðaafslátt til að gera það meira freistandi að búa á þessum stöðum?

Það er hugsanlegt og við eru alveg tilbúnir að líta á það í staðinn fyrir hitt ef það kemur að sama gagni.

Um hvað munuð þið glíma í kosningabaráttunni á Vestfjörðum, eru allir sammála um að vera á móti kvótanum og allir sammála um að lofsyngja jarðgöngin’

Það er auðvitað sami munu á flokkunum og sami munur á lífsviðhorfum á Vestfjörðum og annarsstaðar á landinu þó við kunnum að vera sammála um það sem þú nefndir. Sjálfstæðismenn hafa löngum talið samgöngumálin sinn málaflokk á Vestfjörðum og hafa haft Matthías Bjarnason þar á oddinum sem hefur líka haft mikinn áhuga á samgöngumálum. Hins vegar tókst honum ekki að ná fram þeim samgöngubótum sem hann hafði áhuga á vegna þess að viljann skorti í hans eigin flokki. Þegar ráðherra Alþýðubandalagsins tók við samgönguráðuneytinu fyrir rúmum tveimur árum hafði lengi verið rætt um jarðgöng á norðanverðum Vestfjörðum og brú yfir Dýrafjörð en það fékkst ekki fé til að vinna verkin fyrr. Þarna má sjá muninn. Það var dálítið skondið að sjá afbrýðisemi sumra þingmann Vestfirðinga út af jarðgöngunum. Þess er þó rétt að geta að tveir þingmenn, þeir Karvel Pálmason og Þorvaldur Garðar stóðu heilir á bak við samgönguráðherra í málinu.

Að lokum: hvernig leggjast kosningarnar í þig?

Staða okkar Alþýðubandalagsmanna hefur styrkst í kjördæminu og við getum bent á verk sem sýna að Alþýðubandalagið er hreyfing sem Vestfirðingar geta treyst til að framkvæma það sem aðrir tala um. Ég hef því enga ástæðu til annars en að vera bjartsýnn á úrslit kosninganna.

Viðtal við Kristinn H. Gunnarsson

Þjóðviljinn 13. mars 1991

Athugasemdir